Samfylkingin hlýtur 7 menn í borgarstjórn, jafnmikið og Sjálfstæðisflokkur, Píratar, VG og Viðreisn fengju tvo menn hver og Flokkur fólksins, Miðflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fengju öll sinn mann ef niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins ganga eftir í kosningunum í vor.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá hafa fyrri kannanir sýnt að meirihlutinn hafi haldið með 12 menn eða fleiri af þeim 23 sætum sem eru í boði. Meirihlutinn er myndaður af borgarfulltrúm Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata, sem ásamt Bjartri framtíð, og er hann undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

En nú þyrftu flokkarnir stuðning flokka eins og Viðreisnar eða annarra til að halda meirihlutanum. Björt framtíð býður ekki fram að þessu sinni eftir að ákveðið var að fara ekki í samstarf við Viðreisn með framboð eins og hafði verið í umræðunni.

Hringt var í 1.316 manns í gær 9. apríl, þar til náðist í 800 svarendur og var svarhlutfallið 60,8%, og alls tóku 58,2% þeirra sem náðist í afstöðu. Þá voru 8,3% sem sögðust ekki ætla að kjósa eða að þeir myndu skila auðu, 11,8% sögðust óákveðin og 21,7% vildu ekki svara.

Niðurstaðan er sem hér segir í stærðarröð:

  1. Sjálfstæðisflokkurinn með 28,2% - 7 menn
  2. Samfylkingin með 26,8% - 7 menn
  3. Píratar með 10,8% - 2 menn
  4. Vinstri græn með 10,5% - 2 menn
  5. Viðreisn með 7,9% - 2 menn
  6. Miðflokkur með 4,3% - 1 mann
  7. Flokkur fólksins með 4,3% - 1 mann
  8. Framsókn með 4% - 1 mann

Hér má lesa eldri fréttir um fylgi flokkanna í borginni: