Dagur B. Eggertsson verður áfram borgarstjóri ef ný skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið reynist sannspá fyrir borgarstjórnarkosningarnar eftir minna en mánuð.

Samfylkingin, sem Dagur leiðir, ásamt samstarfsflokkum hans í borgarstjórnarmeirihlutanum fá minnihluta atkvæða, eða samanlagt 47% fylgi, en vegna dreifingar annarra atkvæða dugir það samt til að halda meirihlutanum. Í heild falla 9,5% atkvæða dauð.

Loks fær Viðreisn 5,3% til viðbótar, en flokkurinn starfaði áður í ríkisstjórn með Bjartri framtíð sem einnig styður núverandi meirihluta, en býður sig ekki fram á ný í borginni þó hann geri það með Viðreisn víða annars staðar. Það myndi duga fyrir einum manni til viðbótar við meirihlutann ef flokkurinn myndi semja í þá átt.

Aðrir flokkar fengju 10 menn

Framsóknarflokkurinn er ekki inni með mann samkvæmt þessari könnun, fær 2,8%. Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins fengju samanlagt 10 menn sem ekki dugir til að mynda meirihluta þeirra 23 sem munu sitja í henni eftir kosningar.

Þó munar litlu á að 8. maður sjálfstæðismanna felli annan mann Pírata, sem myndi fella núverandi meirihluta. Eyþór Arnalds oddviti og borgarstjórnarefni Sjálfstæðismanna segir þróunina síga í rétta átt. „Meirihlutinn gefur eftir smátt og smátt, hann hangir á minnsta mögulega mun og fellur á endanum,“ segir Eyþór.

Dagur segist ánægður með stöðuna þó hann telji að taka verði á spöðunum næstu vikurnar. „Ljóst er að það stefnir í jafnar kosningar.“

Fylgi flokkanna samkvæmt könnuninni skiptist þannig:

  • 30,5% og 8 borgarfulltrúar - Samfylkingin
  • 27,3% og 7 borgarfulltrúar - Sjálfstæðisflokkurinn
  • 9,7% og 2 borgarfulltrúar - Vinstri græn
  • 7,3% og 2 borgarfulltrúar - Miðflokkurinn
  • 6,8% og 2 borgarfulltrúar - Píratar
  • 6,7% og enginn borgarfulltrúi - ýmis önnur framboð
  • 5,3% og 1 borgarfulltrúi - Viðreisn
  • 2,8% og enginn borgarfulltrúi - Framsóknarflokkurinn