Endurupptökunefnd var stofnuð hér á landi fyrir tveimur árum síðan. Hlutverk hennar er að taka ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmáls sem dæmt hefur verið í héraði eða Hæstarétti. Þrír aðalmenn sitja í nefndinni, en Alþingi kýs einn aðalmann og varamann hans og Hæstiréttur Íslands og Dómstólaráð tilnefna hvort um sig einn aðalmann og varamann.

Ólafur Ólafsson, sem dæmdur var til fangelsisvistar í Al-Thani málinu á dögunum, mun líklega fara fram á endurupptöku á máli sínu á næstunni, en eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku eru nær allir nefndarmenn tengdir dómurum eða sækjendum málsins.

Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður telur fyrirkomulagið við skipan nefndarinnar óheppilegt. „Það er ekki heppilegt að sá sem á að endurmeta störf Hæstaréttar sæki sitt umboð frá Hæstarétti,“ segir hann.

Gestur segir það vandamál hve náið tengslanet sé í þessu samfélagi, sérstaklega þegar komi að því að svara grundvallarspurningum sem varði hagsmuni einstaklinga eða þjóðfélagshópa.

„Það kemur of oft fyrir að þeir sem taka ákvarðanir hafa tengingar sem eru óæskilegar þegar slíkar ákvarðanir eru teknar. Þetta er eins og lítill kóngulóarvefur og ef þú kemur við hann á einum stað hreyfist allt netið. Það næst ekki sú fjarlægð sem stærri samfélög geta boðið upp á,“ segir Gestur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .