*

laugardagur, 16. febrúar 2019
Innlent 29. desember 2011 12:42

Meniga hlýtur Frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins 2011

Hafa hannað heimilisbókhaldslausn sem allir stóru viðskiptabankarnir hér á landi hafa tekið í notkun og stefna á vöxt erlendis.

Ritstjórn
Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Nýsköpunarfyrirtækið Meniga hlýtur Frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins árið 2011 sem veitt voru í dag samhliða Viðskiptaverðlaunum Viðskiptablaðsins.

Það var Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem veitti verðlaunin við hátíðlega athöfn nú fyrir stundu.

Meniga hefur hannað heimilisbókhaldslausn sem allir stóru viðskiptabankarnir hér á landi hafa tekið í notkun.  Lausnin auðveldar fjölskyldum að fylgjast náið með eyðslu og tekjum heimilisins án mikillar fyrirhafnar þar sem sjálfvirkni er í fyrirrúmi.

„Meniga er leiðandi á sínu sviði í Evrópu. Fyrirtækið fékk verðlaun fyrir bestu tæknilausnina á ráðstefnu þar sem nýjustu tækniuppfinningar í fjármálaheiminum voru kynntar. Framundan eru innleiðingar á veflausnum hjá stórum evrópskum bönkum, meðal annars norrænum banka fljótt á nýju ári og þýskum banka næsta sumar,“ segir í rökstuðningi ritstjórnar Viðskiptablaðsins.

Frá stofnun hefur starfsfólki fjölgað, tekjur margfaldast milli ára og verkefnin orðið fjölbreyttari. Vöxturinn verður notaður til að byggja fyrirtækið hraðar upp og ná fótfestu á markaði sem er að stórum hluta óplægður.  Fjárhagsupplýsingar fólks eru viðkvæm en verðmæt vara sem Meniga hyggst nýta til áframhaldandi sóknar.

Meniga er dæmi um frumkvöðlafyrirtæki sem óx upp úr jarðvegi fallinna banka þar sem hæfileikafólk skapaði sér nýjan vettvang til sóknar með hugvitið eitt að vopni.

Rétt er að geta þess að í Áramót, áramótatímariti Viðskiptablaðsins, er að finna ítarlegt viðtal við Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóra Meniga þar sem hann fjallar um rekstur fyrirtækisins og framtíðaráætlanir þess. Áramót barst áskrifendum Viðskiptablaðsins í morgun og verður einnig fáanlegt í lausasölu.