Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, tjáði sig um fyrirhugaða breytingu á virðisaukaskatti á greinina í Morgunútvarpi Rásar 2. Hún segir að enginn hafi gert ráð fyrir hækkuninni á virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og að engin greining á áhrifum hennar liggi fyrir. Helga bætir við að SAF hafi frétt af hækkuninni klukkustund áður en hún var tilkynnt opinberlega.

„Menn eru hreinlega í sjokki,“ sagði Helga. Hún segir SAF langt frá því að vera ánægð með hækkunina. Fyrir helgi sendi SAF frá sér tilkynningu þar sem talað var um að hækkunin væri: „reiðarslag fyrir ferðaþjónustuna“.

Eins og sakir standa eru skattþrepin í virðisaukaskatti tvö, 24% og 11%. Ferðaþjónustan er nú í lægra þrepinu, en Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, sagði frá því síðastliðinn miðvikudag, að stefnt sé að því að setja ferðaþjónustufyrirtæki í efra virðisaukaskattsþrepið, en lækka þrepið niður í 22,5%. Í því samhengi benti Bjarni á að ferðaþjónustan hafi vaxið mjög fiskur um hrygg undanfarin ár.

„Þá leggur ríkisstjórnin fram áætlun í skattamálum sem gengur út á að minnka álögur á almenning á kjörtímabilinu en auka álögur á ferðaþjónustuna. Þetta er rétti tímapunkturinn til að halda áfram með kerfisbreytingar í virðisaukaskattskerfinu. Það er ekki sama ástæða og áður var til að ívilna ferðaþjónustunni með því að hafa hana í lægra þrepinu. Þess utan er það mikilvægt frá hagstjórnarlegu sjónarhorni að bregðast við gríðarlegri aukningu ferðamanna til landsins,“ sagði forsætisráðherrann enn fremur á ársfundi Seðlabanka Íslands fyrir helgi.

Helga benti á í viðtalinu að víða sé mikið verk óunnið úti á landi og þar sé hægt að efla ferðaþjónustuna enn fremur. Einnig tekur hún fram að ferðaþjónustan á Íslandi sé í mikilli samkeppni við ferðaþjónustu í öðrum löndum heimsins.