Rætt var við Ara Kristinn Jónsson, rektor HR, í viðskiptablaðinu í vikunni. Þar sagði hann að fjórða ipnbyltingin hafi meri breytingar í för með sér en allar iðnbyltingar að þeirri fyrstu frátalinni.

Þetta hlýtur að kalla á miklar breytingar í menntakerfinu. „Alveg svakalegar. Áskoranirnar verða miklar en tækifærin enn meiri. Eitt af því sem þetta þýðir er að þetta jafnar aðstöðumun. Ef þú ætlar að skapa einhver verðmæti þá þarftu ekki lengur tugi þúsunda til að starfa í verksmiðju til að framleiða eitthvað. En ef við ætlum að nýta þetta tækifæri þá verðum við að hafa menntakerfi sem styður við það,“ segir Ari Kristinn.

„Að mörgu leyti er ákveðin jákvæðni í að menntakerfið haldi fókus og elti ekki allar tískusveiflur. En við erum á stað núna sem kallar á verulega endurskoðun menntakerfisins því hlutirnir eru að breytast svo hratt. Frá sjónarhorni háskólamanns þá er þekkingin sem við þurfum að hafa á Íslandi öðruvísi samsett en þekkingin sem við höfum búið til síðustu áratugi. Við höfum séð þetta í tölvubyltingunni.

Hún kallar á miklu fleiri sem eru menntaðir í upplýsingatækni. Jafnvel þeir sem eru ekki í upplýsingatækni þurfa að kunna að nýta hana. Það er tölvutækni alls staðar. Við höfum unnið mikið að því að auka áhuga á upplýsingatækni. Það hefur skilað sér í margföldun á fjölda þeirra sem við höfum útskrifað samanborið við fyrir tíu árum. En eftirspurnin eykst næstum á sama hraða. Ástæðan fyrir því er að þegar við hugsum um hvert fólk með upplýsingatæknimenntun fer hugsum við fyrst um tækni og sprotafyrirtæki. Staðreyndin er hins vegar sú að öll fyrirtæki og stofnanir eru að verða meiri og meiri tæknifyrirtæki. Við þurfum því að halda áfram að þróa menntakerfið þannig að það sinni þörfinni fyrir tæknimenntun í bland við aðra menntun í samhengi við hvernig framtíðin verður,“segir Ari Kristinn.

„Á Íslandi sjáum við meiri og meiri áherslu á hönnun og skapandi greinar til að skapa verðmæti og meiri viðskipti við erlenda aðila. Áður voru örfáir einstaklingar sem sáu um samskipti við útlönd. Þannig er það ekki í dag. Sprotafyrirtæki með fimm starfsmenn er í beinum samskiptum við viðskiptavini um allan heim. Það kallar á breytingar í menntakerfinu.“

Eins og Ari Kristinn nefndi eru uppi áhyggjur um að ákveðin störf leggist af þegar breytingarnar sem hann talar um ná fótfestu. „Menntakerfið hefur þess vegna líka hlutverki að gegna þegar kemur að því að taka á afleiðingum byltingarinnar. Fólk mun þurfa viðbótarmenntun og vill kannski skipta um starfsvettvang. Menntakerfið á að sinna því hlutverki líka. Við þurfum að hugsa öðruvísi um menntun.

Núna erum við svolítið með þetta í kössum. Þannig verður heimurinn ekki til framtíðar, heldur er líklegt að fólk verði sífellt að sækja sér menntun alla starfsævina. Við þurfum því einhvern veginn að komast út úr kössunum, sem er ef til vill mesta átakið fyrir samfélagið, því það er þægilegt að vera í kössunum og með góðan ramma utan um hlutina. Við þurfum hins vegar að verða miklu sveigjanlegri.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .