Kristilegir demókratar – flokkur Angelu Merkel Þýskalandskanslara – mun að öllum líkindum sigra þýsku sambandsþingskosningarnar. Kjörstöðum lokaði klukkan fjögur í dag. Þetta yrði fjórða kjörtímabil kanslarans, ef að hún getur myndað starfhæfan meirihluta.

Gott gengi þjóðernisflokksins - AfD ( Alternative für Deutschland ), skyggði þó nokkuð á sigur Merkel í kosningunum. Flokkurinn gekk betur í kosningunum en gert var ráð fyrir samkvæmt útgönguspám. AfD hefur gagnrýnt innflytjendastefnu Merkel harðlega og munu taka sæti á næsta sambandsþingi. Bent er á í frétt Financial Times að AfD yrði fyrsti öfga hægri flokkurinn til þess að ná svo góðum árangri í kosningum frá falli Þýskalandi nasismans.

Eftir að tilkynnt var um úrslit útgönguspánna sagði Merkel að hún hafi vonast eftir betri úrslitum, en lagði áherslu á að Kristilegir demókratar væru enn stærsti flokkurinn og myndi leiða næstu ríkisstjórn. Stuðningsmenn AfD voru hæstánægðir með úrslitin. Alexander Gauland, formaður flokksins, lofaði því að gera Merkel erfitt fyrir á þinginu. „Við munum taka landið okkar til baka,“ sagði formaður AfD einnig. Formaður sósíaldemókrata, Martin Sculz, sagði að dagurinn hafi reynst erfiður sósíaldemókrötum í Þýskalandi. Flokkur hans verður að öllum líkindum í stjórnarandstöðu miðað við úrslitin.

Samkvæmt útgönguspám, sem verða að öllum líkindum mjög nálægt niðurstöðum kosninga, hlaut flokkur Merkel, Kristilegir demókratar 32,7 prósent atkvæða. Aftur á móti fékk flokkur Schulz - Þýskir Sósíaldemókratar einungis 20,2 prósent atkvæða. Aftur á móti hlaut þjóðernisflokkurin AfD 13,4 prósent atkvæða og verður því þriðji stærsti flokkurinn á þýska sambandsþinginu.

Hvað er þetta AfD?

Þjóðernisflokkurinn Annað Þýskaland (AfD) var stofnaður árið 2013 og var upphaflega stofnaður til þess að mótmæla Evrópusambandinu en eðli hans breyttist með árunum. Í dag er flokkur best þekktur fyrir andstöðu sína við íslam og innflytjendur í Þýskalandi. Eins og sakir standa þá er flokkurinn með 13 þingmenn í 16 ríkisþingum Þýskaland. Samkvæmt greiningu BBC á flokknum þá hefur flokknum vaxið fiskur um hrygg í kjölfar ákvörðunar Merkel að hleypa 900 þúsund flóttamönnum til Þýskalands árið 2015. Flokkurinn er gífurlega vinsæll í gamla Austur-Þýskalandi.

Flokkurinn vill loka ytri landamærum Evrópusambandsins og Þýskalands – og er stefna flokksins algjörlega á skjön við Schengen sáttmálann, sem að Þýskaland er aðili að. Einnig er það vilji flokksins að skipa sérstaka landamæralögreglu. Frauke Petry, sem steig til hliðar sem formaður flokksins fyrr á þessu ári, sagði að þýska lögreglan ætti að geta skotið innflytjendur sem að reyndu að koma til Þýskalands á ólögmætan hátt „ef nauðsyn krefði“.

Vill hlusta á þjóðernissinna

Angela Merkel sagði í ræðu eftir að tilkynnt var um niðurstöður útgönguspánnar að hún væri reiðubúin að hlusta á áhyggjur kjósenda AfD til að vinna þá aftur til sín. Sósíaldemókratar hafa neitað því að vinna með Merkel í tveggja flokka stjórn og því hefur verið leitt líkur af því að því að merkel vinni með Frjálslynda flokknum og Græningjum.

Það ríkisstjórnarsamstarf gæti þó reynst flókið í framkvæmd þar sem að Græningjar og Frjálslyndi flokkurinn eru ósammála á mörgum vígvöllum. Frjálslyndi flokkurinn fær 10,5 prósent atkvæða samkvæmt útgönguspám og Græningjar fá 9,5 prósent. Aftur á móti fær flokkurinn sem staðsettur lengst til vinstri á hinum pólitíska ás, Die Linke, 9 prósent atkvæða.