Síldarvinnslan í Neskaupsstað fagnar því að fyrir réttum 60 árum, hinn 17. júní árið 1958, var í fyrsta sinn tekið á móti hráefni til vinnslu í síldarverksmiðju fyrirtækisins

Þetta er því merkisdagur í sögu en þennan sama dag fyrir sextíu árum átti sér einnig stað hörmulegt banaslys í þróm verksmiðjunnar þegar ungur vélvirki, Þorsteinn Jónsson, fórst.

Í frásögn á vef Síldarvinnslunnar segir að slysið hafi svo sannarlega skyggt á þá gleði sem ríkti vegna tilkomu nýrrar síldarverksmiðju og þeirra þáttaskila sem voru að eiga sér stað í atvinnusögu Neskaupstaðar.

„Því miður er umrætt banaslys ekki hið eina í sögu Síldarvinnslunnar,“ segir á vef fyrirtækisins. „Alls hafa 12 menn látist í starfi hjá fyrirtækinu á þeim 60 árum sem það hefur starfað. Þar af létust sjö í snjóflóðunum 20. desember 1974.“

Jafnframt er skýrt frá því að í dag kl. 16 verði efnt til stuttrar samkomu í Safnahúsinu í Neskaupstað. Þar verða meðal annars kynntar hugmyndir um samkeppni um gerð minningarreits á grunni gömlu síldarverksmiðjunnar. Verður reiturinn helgaður öllum þeim sem látið hafa lífið við störf hjá Síldarvinnslunni.

Fréttinni fylgir einnig minningargrein sem Hlífar Þorsteinsson hefur um föður sinn sem fórst fyrir réttum 60 árum. Þar segir Hlífar meðal annars að ekki sé hægt að minnast á þennan gleðidag „án þess að hafa slysið og þar með sorgardaginn með í þeirri umræðu.“

„Mikið kapp hafði verið í mönnum að koma þessu nýja fyrirtæki áfram og síldarverksmiðjunni í gang,“ segir í minningargreininni. „Uppúr miðnætti var byrjað að landa síld úr fyrsta bátnum, nýbyggð þró sem síldinni var safnað í þoldi ekki þungann og sprakk. Pabbi var að vinna við að koma færibandi saman sem flytja átti síldina inn í verksmiðju, að ég best veit var hann með rafsuðuhjálm fyrir andlitinu og að rafsjóða við færibandið þegar þróarveggurinn féll yfir hann og síldin í þrónni þar á eftir. Hann hefur líklega ekki haft hugmynd um hvað var að gerast.“