Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi í september verði um 1,8% til 2,1% á landsvísu í september. Þetta kemur fram í frétt á vef Velferðarráðuneytisins.

Þar kemur einnig fram að atvinnuleysi á Suðurnesjunum er minna en á höfuðborgarsvæðinu í fyrsta sinn frá 2004. Þetta tengist miklum uppgangi í ferðaþjónustu á svæðinu.

Hlutfall erlendra starfsmanna fer vaxandi

„Mikil þensla á vinnumarkaði hefur í för með sér að fólk flyst í auknum mæli til landsins til starfa, einkum í ferðaþjónustu og byggingariðnaði, en einnig í ýmis konar þjónustustörf s.s. ræstingar, ósérhæfð störf og umönnunarstörf á sjúkrahúsum og dvalarheimilum, í fiskvinnslu og víðar.

Svipuð þróun var mjög áberandi á  árunum 2005 til 2008 þegar þúsundir erlendra ríkisborgara fluttust til landsins  ár hvert. Í kjölfarið var svo brottflutningur erlendra ríkisborgara talsverður enda kreppti  snöggt að í íslensku efnahagslífi haustið 2008. Tölur um búferlaflutninga fyrri helming þessa árs benda til að yfir 8.000 erlendir ríkisborgara muni flytja til landsins á árinu 2016 og eru þá ótaldir  allmargir erlendir starfsmenn sem koma hingað til starfa um skemmri tíma“ segir í minnisblaði Félags- og húsnæðismálaráðherra sem kynnt var á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.

Karlar 1,5% -- Konur 2,5%

Atvinnuleysi meðal karla í ágúst síðastliðnum var 1,5%. Atvinnuleysi meðal kvenna var 2,5%. Mest var atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu, 2,3% en minnst var það á Norðurlandi vestra, 1,0%.