Launagreiðendum fjölgaði hér á landi um 4,5% á síðustu 12 mánuðum, miðað við síðustu 12 mánuði þar á undan. Er það fjölgun um 742 en þeir voru að jafnaði 17.113 að því er Hagstofan greinir frá. Greiddu þeir að meðaltali um 183.600 einstaklingum laun sem er aukning um 4,9%, eða 8.600 einstaklinga, frá sama tímabili ári fyrr.

Mest fjölgun var á meðal launþega í byggingariðnaði og ferðaþjónustu, en heildaraukning launþega nam 9.800 manns, eða 5%.

Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð nam fjölgunin 15%, eða um 1.600 samanborið við maí mánuði árið 2016. Var heildarfjöldinn 12.400 í síðasta mánuði, en launagreiðendurnir voru 2.521.

Fjölgunin var litlu minni í ferðaþjónustu eða 14%, eða um 3.500 manns, en heildarfjöldi launþega í greinum sem einkennast af ferðaþjónustu var 28.100, en þar voru 1.718 launagreiðendur.