Á sama tíma og söluverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 16,3% hefur vísitala leiguverðs á svæðinu hækkað um 11,5%.

Er þá miðað við 12 mánaða tímabil frá janúar 2016, en frá árinu 2011 og fram að þeim tíma höfðu breytingar á leigu- og kaupverði fylgst nokkuð náið að, að því er fram kemur í hagsjá Landsbankans .

Töluverð lækkun varð svo á húsaleigu um mitt sumar 2015 svo vísitala húsaleigunnar dróst talsvert aftur úr vísitölu kaupverðs, og gerðist það sama síðastliðið vor svo sú þróun hefur haldið áfram.

Er staðan því sú nú að kaupverð fjölbýlis hefur hækkað um 10% meira en leiguverð frá upphafi ársins 2011.

Minni íbúðir dýrari en stærri

Leiguverð fyrir tveggja herbergja íbúðir er nær alls staðar töluvert hærra á fermetrann en á þriggja herbergja íbúðum sem er svo alls staðar hærra en á stærstu íbúðunum, en eina undantekningin er á Akureyri.

Mesti munurinn á leiguverði á tveggja og þriggja herbergja íbúðum er í Kópavogi eða 28% en að meðaltali er munurinn um 13% á öllum svæðum.

Mesti munurinn á þriggja herbergja íbúðum og þeim stærstu er mestur á Suðurnesjum, eða 28%, en að meðaltali er munurinn á þeim 16%.

Mest leiguverðshækkun á Suðurnesjum

Mesta hækkun á síðastliðnu ári er 25% hækkun tveggja herbergja íbúða á Suðurnesjum en þar á eftir koma tveggja herbergja íbúðir í Kópavogi.

Minnstu breytingarnar voru á minnstu íbúðunum á Akureyri og um 2% hækkun á þriggja herbergja íbúðum í austurhluta Reykjavíkur.