Nú þegar árinu fer að ljúka er gott að líta yfir farinn veg og skoða mest lesnu innlendu fréttir Viðskiptablaðsins á árinu 2016. Hér eru þær fimm sem næst mest voru lesnar á vef blaðsins, það er þær fréttir sem eru í sætum 6 til 10:

1) Semja við risaverslunarkeðju í Asíu - október

Blámar byrjaði að senda sjávarafurðir til Hong Kong og verða vörur fyrirtækisins fljótlega komnar í 80 Irma-verslanir í Danmörku.

2) Ætlar með söluandvirðið úr landi - október

Björgólfur Thor staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að söluandvirði Nova var meira en 15 milljarðar, en hann hyggst ekki fjárfesta andvirðinu hér á landi.

3) Vilja eignast hundruð íbúða - mars

Heimavellir luku hlutafjáraukningu á árinu, en félagið ætlaði  sér að kaupa leigufélagið Klett og stefnir á skráningu á markað. Það var þó Almenna leigufélagið sem bauð hærra en Heimavellir í Klett.

4) 66° Norður selur úlpu á meira en milljón - júlí

Æðardúnsúlpa 66° Norður, sem ber nafnið Æðey, er ekki til sölu í verslunum fyrirtækisins né upplýsingar um hana á heimasíðunni. Einungis nokkur eintök eru seld á ári og verðið er ekki gefið upp nema við viðskiptavini í viðræðum um þarfir sínar.

5) „Gengi krónunnar er falsað“ - október

Ásgeir Jónsson hagfræðingur sagði Seðlabankann einungis geta hægt á styrkingu krónunnar og nú þurfi fjármagnsútflæði.