Viðskiptablaðið skrifaði fjöldan allan af fréttum um fjármálahlið íþróttaheimsins á árinu 2016. Hér að neðan eru þær fréttir sem voru í 10.-6. sæti yfir mest lesnu fréttir ársins á vb.is í þessum flokki.

10. Strangar reglur um vörumerkin

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu lék í fyrsta skiptið á stórmóti á EM 2016 í Frakklandi í sumar. Margir vildu nýta sér ótrúlegar vinsældir landsliðsins í auglýsingaskyni þrátt fyrir mjög strangar reglur þess efnis. Viðskiptablaðið ræddi við Ómar Smárason, vörumerkjastjóra og fjölmiðlafulltrúa KSÍ, um vörmerkjavernd landsliðsins og reglurnar í kringum vörumerkið.

9. Er Conor orðinn stærri en UFC?

Írski bardagakappinn Conor McGregor gerði allt vitlaust þegar hann neitaði að mæta til Bandaríkjanna á blaðamannafund fyrir seinni bardaga sinn gegn Nate Diaz. Conor hefur verið að raða inn peningum fyrir UFC bardagadeildina og tókst að hrista vel upp í hlutunum þegar hann gaf í skyn að hann væri hættur að berjast.

8. Gaf frá sér risabónus

Sean Lee, varnarmaður Dallas Cowboys, kaus að taka ekki þátt í lokaleik liðsins á NFL tímabilinu og fór hann þannig á mis við tveggja milljóna dollara bónus sem hefði nánast tvöfaldað árslaun hans. Lee þurfti að taka þátt í 80% varnarleikja liðsins til að fá bónusinn en með því að sleppa lokaleiknum uppfyllti hann ekki það skilyrði. Lee vildi ekki vanvirða þjálfara sína og liðsfélaga með því að spila án þess að vera alveg heill heilsu.

7. Handvelur ítalskt vín

Emil Hallfreðsson, leikmaður íslenska landsliðsins og þáverandi leikmaður Hellas Verona, stofnaði um síðustu áramót félagið Cantina ehf. ásamt eigendum Fiskmarkaðarins og Grillmarkaðarins. Fyrirtækið var stofnað til að flytja inn sérstakar tegundir léttvíns, en Emil hefur kynnst ítölsku vínmenningunni á meðan áralangri dvöl hans í landinu hefur staðið. Komst hann í kynni við vínbónda og urðu kynnin grunnurinn að samstarfinu í kringum innflutning vínsins.

6. Fótboltagæðin meiri í Svíþjóð

Íslenska landsliðskonan Sara Björk Gunnarsdóttir var í ítarlegu viðtali við áramótablað Viðskiptablaðsins í fyrra. Sara Björk lék á þeim tíma með sænsku meisturunum í Rosengård og ræddi um dvöl sína hjá félaginu, lífið og tilveruna.