Marsmánuður var stærsti mánuður í sögu keiluiðkunar á Íslandi að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Keiluhöllinni.

Jafnframt er mars 11. mánuðurinn í röð sem Keiluhöllin í Egilshöll er mest sótti keilusalur Evrópu samkvæmt talningakerfinu Steltronic sem tengt er alþjóðlegum talningakerfum.

Í mars síðastliðnum spiluðu 16.235 einstaklingar keiluleik, og köstuðu keilukúlu samtals 478.928 sinnum sem gerir að meðaltali um 524 gesti á hverjum degi í keilu hjá Keiluhöllinni.

2016 stærsta ár í keilu á Íslandi

Mesta aðsóknin var þó laugardaginn 25. mars en þá spiluðu alls 1.219 einstaklingar keiluleik í keilusal fyrirtækisins í Egilshöllinni.

Ári fyrr, eða í marsmánuði 2016 spiluðu 13.589 einstaklingar keilu og köstuðu keilukúlu samtals 387.150 sinnum. Það ár var stærsta ár keilu á Íslandi, en þá spiluðu alls 169.231 einstaklingar keiluleik og köstuðu samtals 4.992.268 sinnum keilukúlu í Egilshöllinni.

Nýir aðilar tóku við fyrir 2 árum

Sigmar Vilhjálmsson framkvæmdastjóri Keiluhallarinnar segir óhætt að segja að keiluæði sé á Íslandi enda finni fyrirtækið fyrir auknum áhuga.

„Það eru tvö ár síðan við tókum við Keiluhöllinni í Egilshöll og verkefni okkar var alltaf að auka áhuga almennings á þessari skemmtilegu íþrótt og  afþreyingu,“ er haft eftir Sigmari í tilkynningunni.

Hann ásamt þeim Jóhannesi Ásbjörnssyni, saman oft kallaðir Simmi og Jói , Jóhannesi Stefánssyni, kenndum við Múlakaffi, Guðríður Jóhannesdóttir og Snorri Marteinsson tóku við rekstri Keiluhallarinnar í mars 2015 samhliða lokunar Keiluhallarinnar í Öskjuhlíð.

Meiri aðsókn en báðum stöðum áður

„Árangurinn er sérstaklega ánægjulegur í ljósi þess að áður en við tókum við, þá voru tveir keilusalir á Íslandi sem gengu ekki alltof vel í rekstri.

Það er því ánægjulegt að við séum að ná meiri aðsókn á þessum eina stað en sameiginlega á báðum stöðum áður.“