Heildarviðskipti með hlutabréf í Kauphöll Nasdaq Iceland námu 49.464 milljörðum í júnímánuði eða 2.355 milljónum á dag. Er þetta 32% minni velta en í mánuðinum á undan en 33% hækkun frá því í sama mánuði árið 2016. Þetta kemur fram í viðskiptayfirliti Kauphallarinnar fyrir júnímánuð.

Mest velta var í viðskiptum með bréf Haga og námu þau 6.505 milljónum króna. Þar á eftir kom Marel með veltu upp á 6.433 milljónir og N1 með 6.371 milljóna veltu.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Arion banki með mestu hlutdeildina, 28,1% (25,6% á árinu), Kvika banki með 18,8% (13,7% á árinu), og Landsbankinn með 17,6% (21,0% á árinu).

Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,8% milli mánaða og stendur nú í 1.763 stigum.  Í lok júní voru hlutabréf 20 félaga skráð á Aðalmarkaði og Nasdaq First North á Íslandi. Nemur heildarmarkaðsvirði skráðra félaga 1.058 milljörðum króna samanborið við 1.067 milljarða í maí.

Skuldabréfamarkaður

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 115,5 milljörðum króna í júnímánuði sem samsvara 5,5 milljarða veltu á dag. Þetta er 26% hækkun frá fyrri mánuði en 28% lækkun frá sama mánuði árið á undan.

Alls námu viðskipti með ríkisbréf 91,2 milljörðum, viðskipti með bankabréf námu 12,4 milljörðum, og viðskipti með íbúðabréf námu 9,2 milljörðum. Mest voru viðskipti með RIKH 18 1009, 15 milljarðar, RIKB 25 0612, 13,2 milljarðar, RIKB 31 0124, 12,4 milljarðar, RIKB 20 0205, 11 milljarðar og RIKB 28 1115, 10,9 milljarðar.

Á skuldabréfamarkaði var Landsbankinn  með mestu hlutdeildina 20,8% (16,3% á árinu), Íslandsbanki með 15,6% (17,9% á árinu), og Kvika banki með 15,5% (15% á árinu).

Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) hækkaði um 0,8% í júní og stendur í 1.319 stigum.  Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar  (NOMXINOM) hækkaði um 0,5% og sú verðtryggða (NOMXIREAL) hækkaði um 0,9%.