Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkað um 0,47% í 1,7 milljarða viðskiptum dagsins og fór hún niður í 1.612,85 stig. Aðalvísitala Skuldabréfa hækkaði hins vegar um 0,14% í tæplega 5 milljarða viðskiptum og endaði hún í 1.365,45 stigum.

Gengi bréfa Nýherja hækkaði mest, eða um 1,13% en í mjög litlum viðskiptum, en Vodafone og Eik fasteignafélag hækkuðu um svipað mikið hlutfallslega, eða 0,46% og 0,45% í svipað miklum viðskiptum eða 64 milljónum og 62 milljónum. Fór gengi bréfa Fjarskipta, móðurfélags Vodafone upp í 65,05 krónur en gengi Eikar endaði í 10,05 krónum við lok viðskipta.

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa Icelandair, eða um 1,32% í 286 milljón króna viðskiptum og fór gengi bréfanna niður í 14,90 krónur. Næst mest lækkun var á bréfum Símans, eða um 1,17% í 157 milljóna króna viðskiptum og fóru bréfin niður í 4,21 krónu hvert bréf.

Mest viðskipti voru svo með bréf Marel hf, eða fyrir 708 milljónir króna en bréf félagsins lækkuðu um 0,32%, niður í 311,00 krónur. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag fagnaði Marel 25 árum í kauphöllinni.