Á morgun er einn mánuður liðinn frá því að bandaríski verslunarrisinn Costco opnaði verslun og bensínstöð í Kauptúni í Garðabæ. Óhætt er að segja að almenningur hafi tekið opnuninni vel. Fjórði hver Íslendingur og þriðji hver íbúi höfuðborgarsvæðisins hefur keypt aðild að Costco. Frá opnun hefur verið örtröð í búðinni og hafa viðtökur Íslendinga farið fram úr björtustu vonum fyrirtækisins.

Koma alþjóðlegs verslunarrisa á borð við Costco til Íslands markar vatnaskil í viðskiptasögu Íslands. Hún varpar ljósi á þá takmörkuðu samkeppni sem til staðar er á neytendamörkuðum og sendir þau skilaboð að unnt sé að gera betur við neytendur í verði. Costco-áhrifin eru þó hluti af stærri þróun sem er að eiga sér stað í íslenskri verslun.

„Við höfum skynjað það undanfarið ár eða svo að fyrirtæki væru að undirbúa sig undir nýjan veruleika. Það eru að eiga sér stað meiri breytingar nú en verið hafa á smásölumarkaði í áratugi. Það eru alveg hreinar línur með það. Þetta er ein stærsta áskorun sem hefðbundin íslensk verlsunarfyrirtæki hafa nokkurn tíman staðið frammi fyrir,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir komu Costco hluta af stærri þróun. Innlendur verslunarrekstur er að verða hagkvæmari, samkeppni virkari og kjör neytenda hagstæðari en áður.

„Koma Costco er hluti af stærri þróun í átt til virkari samkeppni á íslenskum smásölumarkaði,“ segir Jón Bjarki. „Þótt verslunin hafi verið mikið í umræðunni hafa alþjóðlegar verslanakeðjur einnig haft áhrif í þessa veru á undanförnum árum.“ Vísar Jón Bjarki þar til verslana á borð við Lindex, SportsDirect, Elko, Bauhaus, Toys R Us, Costco og næst H&M. „Þá má ekki vanmeta það vaxandi aðhald sem erlend netverslunar veitir innlendri smásöluverslun, bæði í fötum og einnig í fleiri innfluttum vöruflokkum.“ Með aukinni samkeppni kemur lægra vöruverð, meira vöruúrval og aukin gæði.

Jón Bjarki segir neysluhegðun og verðvitund íslenskra neytenda einnig vera að breytast. „Íslenskir neytendur virðast duglegri en áður að stunda verðsamanburð, enda slíkur samanburður auðveldari með aukinni notkun netsins og samfélagsmiðla.“

Þegar rykið sest eftir þær breytingar sem eru að eiga sér stað í íslensku verslunarumhverfi telur Jón Bjarki að velferð hagkerfisins verði meiri.

„Að mínu mati er innlendur smásölumarkaður að verða skilvirkari, bæði með aukinni samkeppni á framboðshlið og eins með vaxandi verðnæmni neytenda á eftirspurnarhliðinni. Það er ótvírætt heilbrigðismerki og leiðir á endanum til aukinnar velferðar fyrir hagkerfið í heild.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .