Heimsmeistarakeppnin í fótbolta sem fer fram um þessar mundir í Brasilíu hefur sýnt fram á vaxandi áhuga á fótbolta um allan heim en samkvæmt nýjustu tölum hefur sjónvarpsáhorf á HM aldrei verið meir.

FIFA greindi frá því að um 11,1 milljónir Bandaríkjamanna hafi horft á leik Bandaríkjanna á móti Ghana á stöðinni ESPN sem eru hæstu tölur sem mælst hafa á HM. Um 42,9 milljónir horfðu á opnunarleik Brasilíu gegn Króötum 12. júní á stöðinni TV Globo sem er mesta áhorf á íþróttaviðburði á árinu á brasilísku stöðinni.

Tölurnar í Bretlandi og á Ítalíu eru einnig háar en um 27 milljónir samtals fylgdust með leik Ítalíu gegn Englendingum. Í Japan fylgdust svo 34,1 milljón með leik þeirra gegn Fílabeinsströndinni á stöðinni NHK en það voru tvöfalt fleiri en fylgdust með næst vinsælasta íþróttaviðburðinum á stöðinni.

Því er óhætt að fullyrði að áhuginn á HM um allan heim er alls ekki að minnka.