*

miðvikudagur, 12. desember 2018
Erlent 13. febrúar 2018 19:35

Mesta verðfall olíu í tvö ár

Brent hráolía hefur lækkað úr 69,65 dali niður í 62,14 dali fatið frá því í byrjun mánaðarins, eða um tæp 11%.

Ritstjórn
epa

Olíuverð hefur ekki lækkað hraðar á einni viku í tvö ár, en tveir helstu mælikvarðar á olíuverð, WTI lækkaði um 9,5% og Brent hráolía lækkaði um 8,5% að því er sagt er frá á vef oilprice.com.

Fyrir tæplega tveim vikum, eða þriðjudaginn 1. febrúar var WTI hráolían, sem kennd er við vestur Texas, seld á 65,80 Bandaríkjadali tunnan, en í dag er hún komin niður 58,73 dali. Það gerir 8,1% lækkun yfir þessar tvær vikur. Á sama tímabili hefur verð Brent hráolíunnar lækkað úr 69,65 dali fatið niður í 62,14 dali, eða um 10,8%.

Lækkunin er sögð stafa af hvort tveggja styrkingu Bandaríkjadalsins og lækkunar á helstu hlutabréfamörkuðum heims, en einnig vegna mikillar aukningar í framleiðslu olíu með bergbroti í Bandaríkjunum, en hún fór í yfir 10,25 milljón föt á dag í fyrstu viku febrúarmánaðar.

Jafnframt er búist við að framleiðslan aukist um 11 milljón föt á dag seinna á árinu, en talningar sýna að um 26 nýir olíuborar hafa verið settir upp í vikunni. Almennt er þó ekki talið að olíufyrirtækin séu að bregðast við miklum verðhækkunum í janúar, heldur sé framleiðsluaukningin í samræmi við langtímaáætlanir fyrir árið, sem miðast við um 9% aukningu miðað við árið 2017.

Stikkorð: Olíuverð Brent hráolía