Kröftugur hagvöxtur mældist á fyrri árshelmingi samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti nú í morgun. Samkvæmt þeim mældist hann 5,2%, en svo mikill  hefur hagvöxtur ekki mælst á fyrri árshelmingi síðan á hinu umdeilda ári 2007. Er vöxturinn talsvert umfram það sem Seðlabankinn spáir fyrir árið í heild sinni. Þetta kemur fram í nýrri umfjöllun frá Greiningu Íslandsbanka.

Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að hagvöxtur á árinu í heild sinni muni nema 4,2%. Hins vegar skýrir kröftugur útflutningur á fyrri helmingi ársins mestan muninn á spá Seðlabankans og niðurstöðu fyrri árshelmings. Greining Íslandsbanka segir hagvöxtinn einnig umfram nýjustu spá greiningardeildarinnar en hún hljóði upp á 4,0% hagvöxt í ár. Einnig sé þessi hagvöxtur talsvert umfram það sem Hagstofan spáir þar sem stofnunin reikni með 3,8% hagvexti í ár.

Hagvöxtur á breiðum grunni

„Hagvöxtur á fyrri helmingi ársins er á nokkuð breiðum grunni. Mikill vöxtur er í einkaneyslu og fjárfestingu sem og í útflutningi. Mældist vöxtur einkaneyslu 4,4% á fyrri árshelming, sem er umtalsverður vöxtur og sá mesti sem mælst hefur í einkaneyslu á fyrri árshelmingi síðan 2006. Ljóst er að bætt fjárhagsstaða heimilanna, m.a. vegna vaxtar í kaupmætti ráðstöfunartekna, er að skila þessum mikla vexti. Er vöxtur einkaneyslu nokkuð nálægt því sem bæði við og Seðlabankinn spáum fyrir árið í heild en okkar spá hljóðar upp á 4,6% en spá Seðlabankans 4,2%,“ segir Greining Íslandsbanka.

Greiningin segir að vöxturinn á fyrri árshelmingi sé sá mesti síðan á fyrri árshelmingi árið 2007. Ljóst sé að Peningastefnunefnd muni taka tillit til þessa þegar hún kemur saman undir lok þessa mánaðar til að ákvarða stýrivexti bankans. Ein af rökum nefndarinnar fyrir hækkun stýrivaxta undanfarið hafi verið að framleiðsluspenna sé nú komin í hagkerfið eftir slaka síðustu ára.

Greininguna má lesa í heild sinni hér.