Hagvöxtur í Japan á öðrum ársfjórðungi reyndist meiri en væntingar voru um vegna aukinnar neyslu og fjárfestinga. Í apríl til júní jókst verg landsframleiðsla ríkisins um 4% á ársgrundvelli en búist hafði verið við 2,5% hagvexti á tímabilinu. Nam hagvöxturinn 1% á þessu þriggja mánaða tímabili.

Um er að ræða lengsta samfellda hagvöxt í landinu í áratug, en hann er knúinn áfram af neyslu og fjárfestingu að því er BBC greinir frá. Er þar fjárfestingum í kringum ólympíuleikana í Tokyo árið 2020 þakkað aukningu í fjárfestingu í landinu síðustu mánuði.

Aukinn útflutningur, þar með talið í snjallsímum og minniskubbum hefur nú fært þetta þriðja stærsta efnahagsveldi heims efst á listann yfir G7 ríkin sem eru með mesta hagvöxtinn. En eins og Bloomberg fjallar um þá eiga þó eftir að koma ársfjórðungstölur frá Kanada, Þýskalandi og Ítalíu.

Jókst neysla almennings um 0,9% á tímabilinu og er hægt að greina aukin kaup í bílum og heimilistækjum, auk þess að fólk fór meira út að borða. Japanstjórn hefur lengi reynt að auka neyslu í landinu, til að reyna að kveikja í hagvexti í landinu, sem lengi hefur verið þjakað af verðhjöðnun og hægum hagvexti. Hefur stefna Shinzo Abe forsætisráðherra verið að reyna að ýta undir verðbólgu í landinu og auka neyslustig almennings.