Gríðarlegur vöxtur var í kortaveltu Íslendinga í útlöndum í apríl á milli ára og var hún sú næstmesta frá upphafi í krónum talið en sú mesta ef leiðrétt er fyrir gengi krónunnar. Að raunvirði jókst kortaveltan um 62% á milli ára í apríl, en mánuðurinn var jafnframt sá næstfjölmennasti í sögunni í utanlandsferðum Íslendinga, eða litlu minni en þegar landinn flykktist út á EM í fyrra.

Er þá miðað við styrkingu krónunnar frá því júní í fyrra þegar mesta hækkunin var í krónum talið þegar áhrif EM í knattspyrnu voru hvað mest að því er Greining Íslandsbanka segir frá.

Lítil aukning innanlands

Segir greiningardeildin að þessi þróun rími við gríðarlega aukningu í utanlandsferðum Íslendinga, sem og að verslun Íslendinga sé að færast í auknum mæli út fyrir landsteinana.

„Þrátt fyrir þessa þróun hefur aldrei áður mælst eins mikill afgangur af kortaveltujöfnuði í apríl og þeim síðastliðna, sem aftur á rætur að rekja til þess hversu margir erlendir ferðamenn eru orðnir hér á landi í samanburði við fjölda Íslendinga,“ segir bankinn og vísar í tölur Seðlabankans, en á sama tíma jókst kortavelta Íslendinga lítið innanlands.

„Þannig jókst kortavelta Íslendinga innanlands aðeins um 0,2% að raunvirði (m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis), sem er hægasti vöxtur hennar í tvö ár.

Fimmtungur þjóðarinnar á faraldsfæti

Kann það svo aftur að skýrast að einhverju leyti af því að hátt í fimmtungur þjóðarinnar var á faraldsfæti í mánuðinum, og þar með ekki hér heima til þess að strauja kortin sín.

Að þessu samanlögðu var ágætis vöxtur í kortaveltu Íslendinga í apríl sl., eða um 7,3% í heild að raunvirði, sem er þó aðeins hóflegri vöxtur en var að jafnaði á fyrsta ársfjórðungi (10,4%).“

Aldrei hærra hlutfall af eynkaneyslu Íslendinga erlendis

Telur greiningardeildin þetta benda til þess að það stefni í töluverðan vöxt einkaneyslu sem og að stærra hlutfall einkaneyslu hérlendis verði að utan. Fyrir utan ferðamennsku sé þar einnig mikil viðskipti við erlendar netverslanir.

„Nú í apríl nam velta einstaklinga í útlöndum um 17,3% af heildarkortaveltu þeirra og hefur þessi hlutdeild aldrei áður verið eins há,“ segir í umfjölluninni.

Minnkandi neysla ferðamanna

Telja þeir hægari aukningu í kortaveltu ferðamanna, nú fimm mánuði í röð, benda til þess að þeir taki mið af eyðslu í heimamynnt sinni meðan á Íslandsdvöl stendur, það er þeir eyði minna hér á landi en áður.

Þrátt fyrir allt þetta sé mismunur á kortaveltu Íslendinga í útlöndum, sem nam 11,9 milljörðum í apríl og kortaveltu útlendinga hér á landi jákvæður um 6,4 milljarða.„Þetta er hagstæðasta útkoma þessa jafnaðar í aprílmánuði frá upphafi, en munurinn er þó minni á milli ára en verið hefur síðustu misserin.“