Í nóvember var 30% aukning í fjölda pakkasendinga innanlands miðað við sama tíma í fyrra, en fyrstu 11 mánuðina var 60% aukning á erlendum sendingum miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Póstinum, en þar segir að í desember verði lengri opnunartími og fleiri afgreiðsludagar en síðasti öruggi skiladagur pakka innanlands er 20. desember.

Fleiri innlendir pakkar fóru í gegn hjá Póstinum í nóvember heldur en í öllum desembermánuði í fyrra og má rekja það til meiri netverslunar en hún hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Alls jukust pakkasendingar í nóvember um 30% á milli ára.

Aukninguna í nóvember má að hluta rekja til vinsælda þriggja netverslunardaga – Singles Day, Black Friday og Cyber Monday, þar sem verslanir buðu vörur með miklum afslætti. Pakkamagnið í nóvember bendir einnig til þess að Íslendingar hafi hugað fyrr að jólagjafainnkaupum í ár en í fyrra. Erlendum sendingunum fjölgað um rúm 60% frá árinu 2016.

Erlend netverslun er einnig í stöðugum vexti. Þegar fyrstu 11 mánuðir ársins eru bornir saman við sama tímabil í fyrra kemur í ljós að sendingum erlendis frá hefur fjölgað um rúm 60%. Ekkert lát virðist vera á þessari aukningu og sérfræðingar spá því að netverslun Íslendinga haldi áfram aukast á næstu misserum.

Anna Katrín Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Póstsins segir óhætt að segja að það sé mikið að gerast hjá fyrirtækinu. „[V]ið erum að afhenda sendingar að meðaltali á 12 sekúndna fresti í heimkeyrslu,“ segir Anna Katrín.

„Við tókum einnig upp þá nýbreytni nú í nóvember á höfuðborgarsvæðinu að keyra pakka út á laugardögum til að bregðast við aukningunni. Innkaupavenjur Íslendinga eru að breytast hratt og mörgum finnst þægilegt að versla á netinu.

Fólk upplifir sig öruggara í þessum viðskiptum en það gerði fyrir nokkrum árum. Það er líka auðvelt að fylgjast með för sendingarinnar á netinu og ef fólk er búið að skrá sendingarnar hjá Póstinum fyrirfram þá gengur tollskoðunin hratt fyrir sig og fólk fær pakkana afhenta á skömmum tíma.“

Opið alla daga fram að jólum

Með auknum pakkasendingum hefur álag á pósthúsum aukist mikið og má búast við miklum fjölda sendinga í desember. Afgreiðsludagar verða því fleiri og opnunartímar verða lengdir í desember.

Þannig verður opið alla daga fram að jólum á pósthúsum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri ásamt því að opnunartími pósthúsa á öðrum stærri stöðum verður lengdur frá og með 17. desember. Frekari upplýsingar um opnunartíma má sjá á jólasíðu Póstsins, postur.is/jol.