Hagstofa Íslands metur nú hvort að tilefni sé til þess að gera breytingar á vísitölu neysluverðs vegna nýrra verslana. Líklegt er að Hagstofan vísi hér meðal annars til innreiðar Costco á íslenskan smásölumarkað. Í tilkynningu frá stofunnni er tekið fram að ef að verði ástæða til þá koma þær breytingar fram í gildi vísitölu neysluverðs í desember á þessu ári.

„Til að meta breytingar á innkaupum heimila er nauðsynlegt að fyrir liggi ítarlegar upplýsingar um þau bæði verð og magn. Alla jafna eru breytingar á neyslu hægar og niðurstöður Rannsóknar á útgjöldum heimila breytast lítið milli ára en þátttakendur í rannsókninni veita Hagstofu Íslands mikilvæga heimild um hvar vörur eru keyptar með því að afhenda kvittanir úr innkaupum. Við árleg grunnskipti endurmetur Hagstofan innbyrðis vægi verslana út frá þessum upplýsingum og tekur tillit til breytinga á innkaupamynstri ef því er að skipta.

Hliðstæðar upplýsingar þurfa að vera tiltækar ef meta á breytingar á innkaupum heimila með tíðari hætti sem kallar á að leitað sé nýrra heimilda og þróaðar aðferðir við að vinna úr þeim nýtanlegar niðurstöður. Hagstofan mun gera grein fyrir niðurstöðunum og þeim aðferðum sem beitt verður,“ segir í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.