Vátryggingafélag Íslands (VÍS) tilkynnti í dag um kaup sín á 21,8% hlut í fjárfestingarbankanum Kviku. Eins og fram kom í tilkynningunni greiðir félagið um 1.655 milljónir króna fyrir hlutina og það að fullu með reiðufé.

Miðað við þetta kaupverð, er verið að meta bankann á ríflega 7,5 milljarða. Mikið hefur verið rætt um Kviku undanfarið, enda reyndi Virðing að gera kauptilboð stuttu fyrir jól. Ekkert varð úr þeim kaupum, þar sem hluthafar Kviku höfnuðu tilboðinu og gerðu móttilboð.

VÍS hefur verið að fjárfesta umtalsvert. Samkvæmt árshlutauppgjörum félagsins námu fjárfestingareignir VÍS rúmlega 34 milljörðum króna og eignir þeirra samtals 47,8 milljörðum. Eigið fé félagsins var þá 15,5 milljarðar og eiginfjárhlutfallið um 32,4%.