Ráðgjafarfyrirtækið Capacent metur gengi bréfa Símans á 5,1 krónu á hlut í nýlegu verðmati á félaginu. Er félagið metið á ríflega 46 milljarða króna. Er það um 36% hærra verð en sem nemur markaðsvirði bréfanna við lokun markaða á miðvikudag en þá stóð gengi þeirra í 3,74 krónum á hlut sem samsvarar markaðsverðmæti upp á tæplega 33,7 milljarða króna. Metur Capacent því verðmæti Símans rúmlega 12 milljörðum hærra en sem nemur markaðsverðmæti fyrirtækisins. Hækkar ráðgjafarfyrirtækið verðmat sitt um 0,2 krónur á hlut frá síðasta mati sem birt var í júní.

Í samræmi við væntingar

Í matinu segir að ekkert gleðji greiningaraðila meira en þegar spár og áætlanir gangi upp og að rekstur Símans á fyrri hluta ársins hafi verið á áætlun og í samræmi við væntingar. Rekstrarhagnaður Símans fyrir afskriftir (EBITDA) hafi numið 4.445 milljónum króna á fyrri helmingi ársins samanborið við 4.290 milljónir á sama tíma í fyrra. Gera stjórnendur Símans ráð fyrir að EBITDA ársins verði á bilinu 8,4–8,8 milljarðar en rekstraráætlun Capacent gerir ráð fyrir að EBITDA verði 8,6 milljarðar króna.

Þá er það tekið fram að Símanum sé að takast að auka rekstrarhagnað sinn á tímum þar sem mikill lækkunarþrýstingur er á tekjur félagsins. Kemur tekjuþrýstingurinn meðal annars til af því að reikigjöld á farsíma (e. data roaming) voru felld niður á evrópska efnahagssvæðinu á miðju síðasta ári. Drógust tekjur Símans af farsímaþjónustu saman um 538 milljónir króna eða 7,5% árið 2017. Þá hefur hörð samkeppni á fjarskiptamarkaði orðið til þess að verð á símaþjónustu hefur lækkað um 8,4% á síðustu 12 mánuðum samkvæmt Hagstofunni.

Reksturinn skilvirkari

Samkvæmt Capacent liggur ástæða hærri EBITDA hjá Símanum í vexti annarra tekna og auknum afskriftum. EBITDA sem hlutfall af tekjum var 32,5% á fyrri hluta ársins en var 31,2% á sama tíma í fyrra og heldur félagið því áfram að bæta rekstur sinn. Þá hafi hagræðingaraðgerðir sem félagið fór í á árinu 2016 heppnast vel en EBITDA hlutfall Símans hefur hækkað nær stanslaust frá árinu 2015 þegar það var 26,9%.

Rekstrarspá Capacent um EBITDA Símans fyrir árið 2018 er nær óbreytt frá síðasta mati en þó eru gerðar minniháttar breytingar á rekstrarspá. Gera greinendur nú ráð fyrir óbreyttum tekjum en áður var gert ráð fyrir örlitlum tekjusamdrætti. Á móti kemur að spá um framlegð hefur verið lækkuð örlítið fyrir núverandi ár þar sem breytingar á reikigjöldum séu að taka örlítið meira af framlegð félagsins en Capacent reiknaði með. Þá hækkar veginn fjármagnskostnaður (WACC) Símans úr 7,4% í 7,5% sem skýrist af því að áhættuálag á símafyrirtæki á alþjóðamörkuðum hefur hækkað frá síðasta mati.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .