Bandaríska kapalsjónvarpskeðjan Comcast bauð hærra í hlut í Sky sjónvarpsstöðinni bresku heldur en 21st Century Fox, sem nýtur stuðning Disney.

Hefur Comcast gefið hluthöfum Sky frest til 11. október að taka tilboði sínu sem er 17,28 pund hvert bréf. Verðið er töluvert hærra en fyrra tilboð félagsins sem var 14,75 pund, og metur heildarvirði Sky keðjunnar á 30,6 milljarð punda.

Það samsvarar tæplega 4.427 milljörðum íslenskra króna. Í kjölfarið hækkaði verðgildi bréfa í Sky á markaði um 8,58% og hefur það síðan haldist stöðugt í kringum tilboðsverðið. Fox aftur á móti stendur frammi fyrir því að ákveða hvað félagið eigi að gera við 39% eignarhlut í Sky sem félagið hafði samið um að selja til Disney fyrr í sumar.

Áhugi bandarískra fjölmiðlakeðja á Sky og þeim 23 milljónum viðskiptavina sem félagið er með er kominn til vegna aukinna vinsælda nýrra aðila á markaðnum eins og Netflix og Amazon. Með kaupunum vilja fyrirtækin verja stöðu sína og ná nýju efni, þar með talið réttindum að útsendingum á fótbolta í Evrópu.