Alls voru 115 fyrirtæki skráð í kauphallir Nasdaq á Norðurlöndunum árið 2017. Heildarfjármögnun í þessum nýskráningum nam 3,8 milljörðum evra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nasdaq Nordic. Nasdaq rekur kauphallir í Kaupmannahöfn, Helsinki, Stokkhólmi og í Reykjavík.

Um er að ræða nýtt met í nýskráningum, en fyrra met var frá árinu 2015 þegar 97 nýskráningar áttu sér stað. Alls voru 79 fyrirtæki (69% af öllum nýskráningum) skráð á First North markaði.

Aðrir áfangar náðust á árinu. Til að mynda hefur fjöldi fyrirtækja á aðalmarkaði Nasdaq í Stokkhólmi aldrei verið meiri, eða 321. Földi fyrirtækja á First North mörkuðum fór yfir 300 í fyrsta skipti á árinu, en í dag eru þau 318. Þá færði sextugasta fyrirtækið sig um set frá First North og yfir á aðalmarkað síðan árið 2006.

Aðeins ein nýskráning átti sér stað á First North á Íslandi á árinu, með skráningu Klappa Grænna Lausna. Engin skráning átti sér stað á aðalmarkað Kauphallarinnar.