Í kjölfar staðfests samruna Materia Invest ehf. og Icon ehf. tekur Materia Invest ehf. yfir allar eignir og skyldur Icon ehf. Allir eignarhlutir Icon ehf. í FL Group hf., samtals 448.487.889, færast því yfir til Materia Invest ehf. Eftir yfirfærsluna mun Materia Invest ehf. eiga samtals 852.899.654 hluti í FL Group hf., eða 10,74% hlutafjár.

Materia Invest ehf. og Icon ehf. eru í eigu sömu aðila. Magnús Ármann, Þorsteinn M. Jónsson og Kevin Stanford eiga þriðjung hver í Materia Invest ehf. og Icon ehf. Raunverulegt eignarhald hefur því ekki breyst við samrunann segir í fréttinni.

Þorsteinn M. Jónsson er varaformaður í stjórn FL Group hf. og Magnús Ármann er stjórnarmaður í FL Group hf. Kevin Stanford á hvorki sæti í stjórn né varstjórn FL Group. Þorsteinn M. Jónsson á 24.771.499 hluti í FL Group í  gegnum framvirka samninga. Eftir samrunann eiga aðrir fjárhagslega tengdir aðilar 90.000.000 hluti í FL Group. Sólmon ehf. keypti auk þess 123.456.791 hluti þann 17. september 2007, með fyrirvara um að hluthafafundur FL Group myndi samþykkja fyrirhugaða hækkun hlutafjár, hlutafjárhækkunin hefur verið samþykkt en eru hinir nýju hlutir ekki skráðir í kauphöll.