Frá því að MMR hóf að kanna ferðatilhögun Íslendinga í júní 2011 hafa ekki fleiri Íslendingar ætlað að ferðast erlendis, en jafnframt ætla færri að ferðast innanlands en síðustu ár.

Nærri helmingur ætlar að ferðast utan landsteina

Sögðust 85% aðspurðra að ferðast í sumarfrínu, og eru íbúar höfuðborgarsvæðisins líklegri til að ferðast innanlands en íbúar landsbyggðarinnar.

Af þeim sem tóku afstöðu ætla 49,6% að ferðast utanlands í sumarfríinu og þar af sögðust 14,4% eingöngu ætla að ferðast utan Íslands. Er þetta töluverð aukning frá árinu 2013 þegar 35,2% sögðust ætla að ferðast utanlands og þar af 7,1% eingöngu utanlands.

Hafa þeim sem ætla að ferðast innanlands að sama skapi fækkað úr 82,8% árið 2013 í 70,9% nú. Einnig fækkar eilítið þeim sem ekkert ætla að ferðast neitt í sumarfrínu, úr 16,0% í 14,7%.

Höfuðborgarbúar líklegri til að ferðast innanlands

Þeir sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu eru líklegri til að ætla að ferðast innanlands, þannig sögðu 73,3% þeirra ætla að ferðast innanlands, en 66,5% þeirra sem búsettir eru á landsbyggðinni.

Eins og gefur að skilja fer ferðatilhögun fólks eftir tekjum, en af þeim sem hafa milljón eða meira á mánuði ætla 57,1% að ferðast bæði innan- og utanlands, meðan 37,5% þeirra sem hafa heimilistekjur undir 250 þúsund á mánuði.

Stjórnmálaskoðanir skipta máli

Athygli vekur að hægt er að sjá fylgni milli stjórnmálaskoðana fólks og hvernig það hagar ferðalögum sínum í sumarfríinu.

Þannig eru stuðningsmenn Framsóknarflokksins líklegastir til að ferðast en stuðningsmenn Samfylkingarinnar ólíklegastir. Einungis 4,8% stuðningsmenn Framsóknar ætluðu ekki að ferðast neitt, en 23,1% þeirra sem studdu Samfylkinguna. Jafnframt eru stuðningsmenn Bjartrar framtíðar líklegastir til að ætla að ferðast innanland en stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins ólíklegastir. Ætla 81,1% stuðningsmanna Bjartrar framtíðar að ferðast innanlands, en 69,5% stuðninsmanna Sjálfstæðisflokksins.