Bandaríski bankinn JP Morgan Chase hagnaðist um 5,71 milljónir dala, jafnvirði tæpra 700 milljarða króna, á þriðja ársfjórðungi. Þetta er aukning um 35% frá sama tíma í fyrra. JP Morgan er einn stærsti banki Bandaríkjanna. Aðrar eins afkomutölur hafa aldrei áður sést í sögu bankans og voru þær langt umfram væntingar markaðsaðila.

Hagnaðurinn jafngildir 1,4 dölum á hlut á fjórðungnum samanborið við 1,02 dali á hlut í fyrra.

Tekjur JP Morgan námu 25,9 milljörðum dala sem er 6% aukning á milli ára.

Bandaríska dagblaðið New York Times segir mestu skipta að markaður með íbúða- og fasteignalán og endurfjármögnun eldri lána hafi tekið við sér að nýju en útlánaaukning af þeim sökum jókst um 57% á mill ára. Blaðið hefur eftir Jamie Dimon, forstjóra bankans, að bankinn telji vísbendingar um að fasteignamarkaðurinn vestanhafs sé að taka við sér.