Grænlenski sjávarútvegsrisinn, Royal Greenland, skilaði methagnaði á síðasta rekstrarári, eða um 335 milljónum danskra króna fyrir skatt (tæpir 5,3 milljarðar ISK). Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins. Þar segir einnig að með yfirtöku á Qin-Sea Fisheries á Nýfundnalandi hafi Royal Greenland styrkt stöðu sína enn frekar í veiðum og vinnslu á kaldsjávarrækju. Auk þess hafi veiðar og vinnsla á snjókrabba bæst við sem stoð undir reksturinn.

Rekstrarárið er óvenjulangt að þessu sinni eða 15 mánuðir þar sem verið var að færa ársuppgjörið yfir á almanaksárið. Í heild námu rekstrartekjur á þessum 15 mánuðum rúmum 7 milljörðum danskra króna (um 110 milljörðum ISK).

Ef aðeins er litið til 12 mánaða til að fá samanburð við síðasta 12 mánaða uppgjör þá jukust tekjur félagsins um 14%. Miðað við sama tíma þá jókst hagnaður um 20 milljónir (315 milljónir ISK). Tillaga verður lögð fyrir næsta aðalfund félagsins að greiddur verði 100 milljóna arður til eigenda (tæpur 1,6 milljarður ISK).