Færeyska fyrirtækið Ocean Rainforest hefur í rúm tíu ár unnið að þörungarækt í Funningsfirði á Austurey í Færeyjum. Fyrirtækið reiknar með að framleiða 150 tonn á þessu ári og stefnir á 500 tonn eftir eitt eða tvö ár.

Framkvæmdastjóri Ocean Rainforest er Olavur Gregersen.

„Þetta byrjaði allt árið 2007. Þá var mikið talað um sjávargróður og hvernig hægt væri að nýta hann til að bregðast við loftslagsbreytingum og hlýnun jarðar. Þá kom þessi hugmynd að rækta skóg í hafinu til að taka í sig koltvísýring.“

Olavur starfaði þá sem ráðgjafi, sem hann gerir raunar enn, þegar Gilli Trónd hafði samband við hann.

„Það var hann sem kom með hugmyndina og spurði mig hvort ég gæti hjálpað til við að útvega fjármagn.“

Það tók síðan nokkurn tíma áður en Gilli Trónd væri komin með öll nauðsynleg leyfi til að gera fyrstu tilraunir. Þeir stofnuðu síðan fyrirtækið Ocean Rainforest og hófust handa.

„Næstu fimm árin gerðist síðan ekki mikið annað en að við vorum að prófa okkur áfram. Síðan ákváðum við að fara að þessu með vísindalegri hætti. Við tókum að skoða hvaða tegundir eru líklegastar til að gefa mest af sér og hverjar er auðveldast að rækta með góðum árangri. Svo þurftum við líka að kanna hvort þetta myndi ganga upp efnahagslega.“

Upphaflega var stefnt að því að vinna eldsneyti úr sjávargróðrinum, en Olavur segir að það sé ekki lengur inni í myndinni. Að minnsta kosti ekki sem stendur.

„Verð á eldsneyti hefur lækkað svo mikið þannig að þetta yrði ekki samkeppnishæft hjá okkur. Við ákváðum því að taka aðra stefnu og skoða hvaða önnur not væri hægt að hafa af sjávargróðri.“

Fyrsta uppskeran seld 2014
Það var svo árið 2014 sem ræktunin hófst fyrir alvöru og fyrsta uppskeran var seld.

„Við seldum í litlum mæli til að byrja með, en síðan þá hefur þetta verið verkefni sem hefur einkennst mikið af nýsköpun og tilraunum. Við gerum þetta nefnilega allt öðru vísi en annars staðar þekkist. Víðast hvar hafa menn yfirleitt verið að vinna sjávargróður á hafsvæðum sem eru meira í skjóli. Það eru engin fordæmi fyrir því sem við erum að gera, að minnsta kosti ekki í Evrópu.“

Ocean Rainforest er með sína rækt nefnilega út á opnu hafi, sem er það nýstárlega við þeirra nálgun.

„Við erum með þetta á allt að 50 til 60 metra dýpi og ölduhæðin er mikil, allt upp í fjórir til fimm metrar. Annars staðar þar sem menn eru í meira skjóli er ölduhæðin sjaldnast meiri en einn til tveir metrar. Við höfum þess vegna þurft að læra á þetta erfiða umhverfi og laga okkur að því.“

Sú aðlögun snýst meðal annars um það hvers konar búnaður henti best.

„Við höfum líka þurft að lágmarka kostnaðinn hjá okkur, því sjávargróður hefur ekki verið dýr vara í eftirspurn. Það er hægt að ná í mikinn lífmassa en það er kostar töluverða vinnu að ná verðmætum út úr honum.“

Framleiðslan hefur aukist ár frá ári síðan 2014 og nú á þessu ári reiknar Olavur með að uppskeran verði um 150 tonn.

„Við stefnum að því að fara upp í 500 tonn á ári eða svo áður en við förum að þróa þetta frekar. Ég reikna með að við náum því marki eftir eitt eða tvö ár.“

Síðan er stefnt að því að fá meira hlutafé frá fjárfestum til að geta fjölgað línum í hafinu.

Ocean Rainforest hefur einkum einbeitt sér að tveimur tegundum sjávargróðurs, beltisþara (laminaria saccharina) og marinkjarna (alaria esculenta). Báðar tegundirnar henta vel við aðstæður í Færeyjum. Einnig hafa þeir prófað sig áfram með söl, en orðið lítt ágengt

„Það er mikil eftirspurn eftir sölum, en hvergi hefur mönnum tekist að rækta þau að neinu gagni,“ segir

Línur lagðar í sjó
Þangræktin hjá Ocean Rainforest fer þannig fram að lagðar eru línur í sjó, svipaðar þeim sem notaðar eru við veiðar með flotlínu. Út frá línunum liggja svo taumar niður í hafið með reglulegu millibili og á þeim vex þarinn.

Þarinn vex mjög hratt og það er ekki síst það sem gerir hann spennandi og eftirsóttann til ræktunar. Auðvelt er að ná miklu magni úr sjó og nýta til framleiðslu á varningi af ólíku tagi.

Ocean Rainforest hefur þó látið sér nægja að framleiða hrávöruna, og selur afurðina ýmist frysta eða þurrkaða í pakkningum til kaupenda.

Ocean Rainforest hefur verið í samstarfi við ýmsar stofnanir og fyrirtæki, þar á meðal Matís hér á landi.

Fyrirtækið hefur sett sér metnaðarfullt markmið. Á heimasíðu þess segir að stefnt sé að því að Ocean Rainforest verði „áreiðanlegasti framleiðandi hágæðasjávargróðurs í Evrópu.“

Olavur tók þátt í alþjóðlegu sjávarútvegsráðstefnunni WSC2017 í Hörpu síðastliðið haust, þar sem hann kynnti starfsemi fyrirtækisins og þá möguleika sem felast í þangrækt.

Þar sagði hann sjávargróður vannýtta auðlind sem hægt sé að nýta með margvíslegum hætti meðal annars til manneldis og í dýrafóður.

Óþrjótandi möguleikar
Þang og þari hafa verið nýtt í vörur af ýmsu tagi, allt frá snyrtivörum og lyfjum til dýrafóðurs og manneldis.

Með líftækni hafa verið unnin margvísleg fæðubótarefni úr þörungum. Mjöl unnið úr sjávargróðri hefur verið notað í dýrafóður með góðum árangri. Þörungamjöl hefur einnig verið notað sem áburður í ræktun.

Nokkuð hefur verið gert af því að nýta þang og þara í tískuklæðnað. Sú hugmynd hefur einnig skotið upp kollinum að vinna lífrænt eldsneyti úr sjávargróðri, sem kæmi þá í staðinn fyrir jarðolíu.

Þá geta þörungar nýst í ferðaþjónustu. Í Færeyjum er til dæmis boðið upp á köfun í þaraskógi í Akkersvík við Hvítanes, en Hvítanes er á Straumey skammt norður af höfuðborginni Þórshöfn.