Mjög góð veiði var hjá norsku loðnuskipunum við Ísland í síðustu viku að því er fram kemur á vef norska síldarsamlagsins. Alls veiddu þau 37.900 tonn. Fara verður allt aftur til ársins 2012 í loðnuveiðar norskra skipa í Barentshafi til að finna meiri afla á einni viku.

Fram kemur í fréttinni að hlutur Norðmanna í aukningu loðnukvótans hafi verið rúm 19 þúsund tonn. Í heild hafa norsk skip veitt tæp 55 þúsund tonn af loðnu hér við land á vertíðinni af um 59.500 tonna heimild.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir loðnu til manneldisvinnslu og fyrr í vikunni var greitt metverð fyrir loðnuna, að því er segir á vef síldarsamlagsins. Eftir að tilkynnt var um aukningu kvótans lækkaði verðið en er samt áfram hátt.