Verðmæti fiskveiða í Skotlandi hafa aldrei verið meiri en á síðasta ári. Þetta er veganestið sem Bretar fara með inn í Brexit-viðræðurnar við ESB. Í þeim viðræðum ræðst framtíð sjávarútvegs í Skotlandi, að því er segir á vefnum Scotsman.com.

Aflaverðmæti skoskra skipa nam 563 milljónum punda á árinu 2016 (72,8 milljarðar ISK), samkvæmt hagtölum sem birtar voru í síðustu viku. Þettar er um 29% aukning verðmæta frá árinu á undan. Góður árangur skýrist fyrst og fremst af uppgangi í uppsjávarfiski, eins og síld og makríl, en verð á þessum tegundum var afar hátt. Skosk skip lönduðu rúmum 453 þúsund tonnum á síðasta ári sem er aukning um 3% milli ára. Ársverk á skoskum fiskiskipum voru 2.038 á síðasta ári en alls unnu 4.823 manns til sjós í lengri eða skemmri tíma.

Fiskveiðar skipta miklu máli í hinum dreifðu byggðum Skotlands og sjávarafurðir eru stór hluti af vöruútflutningi frá Skotlandi. Skotar óttast að fiskveiðum verði fórnað fyrir aðra hagsmuni sem Bretar kunni að setja á oddinn í Brexit-viðræðunum.

Fram kemur í frétt Scotsman að alls lönduðu bresk skip 708 tonnum af fiski árið 2015 að verðmæti 775 milljónir punda (rúmum 100 milljörðum ISK) í breskum höfnum og erlendis. Þar af var hlutur skoskra skipa um 62% að magni til sem er meira en tvöfalt það magn sem ensk skip lönduðu.