Nefnd breskra þingmanna segir að ríkisvaldið eigi að beita sér gegn þeirri hnignun sem breyttar neysluvenjur í verslun hafi þýtt fyrir verslunar- og miðbæjarkjarna. Meðal þess sem nefndin leggur til er að hækka skatt á stórar vefverslanir eins og Amazon en þannig megi stuðla að „jafnari samkeppni,“ að því kemur fram á fréttasíðu BBC . Jafnframt megi lækka skatta og gjöld á verslanir í miðbæjum og stuðla að endurskipulagningu verslanahverfa.

Fimmtungur allrar verslunar í smásölu á Bretlandi fer nú fram á netinu og segja stjórnvöld að vinna nefndarinnar miði að því að viðhalda verslunarkjörnum og tryggja að þeir aðlagist breyttum tímum. Áhrifa breyttra neysluvenja hafa stigmagnast undanfarin ár og afleiðingin er hröð fækkun verslana og hratt minnkandi aðsókn í helstu verslanahverfi. Dæmi séu um að nokkrir verslunarsvæði, sem áður voru fjölsótt og vinsæl, verði fljótlega að draugabæjum ef ríkisvaldið, sveitarfélög, fasteignafélög og nær samfélagið spyrni ekki í sameiningu við þróuninni.

Einn angi vandans, að mati nefndarinnar, er sú staðreynd að hefðbundnar verslanir greiði töluvert hærri gjöld en vefverslanir. Amazon greiði til að mynda 0,7% af veltu félagsins í Bretlandi í gjöld og álögur á meðan hlutfall hefðbundinna verslana sé um 1,6%. Af þessum sökum leggur nefndin til að skattar á vefverslanir verði hækkaðir og skattheimtan nýtt til að lækka gjöld á hefðbundnar verslanir og til uppbyggingar og endurskipulagningar verslana- og miðbæjarkjarna.