Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins fasteignafélags segist fagna því að hafa náð samningum við H&M sem verður ankerisleigutaki á nýju verslunarsvæði Hagatorgs í miðbæ Reykjavíkur.

Biðum með samninga við aðra

„Á Hafnartorginu höfum við 8.000 fermetra verslunarrými, og við erum í viðræðum við marga aðila, en við vildum ekki halda þeim áfram fyrr en við myndum landa samningunum við H&M, sem verða ankerisleigutakar hérna niðrí miðbæ, og svo prjónum við í kringum það,“ segir Helgi.

„Við höfum hugsað svæðið sem hluta af stærri heild, og við höfum kynnt fyrir Reykjavíkurborg að tengja saman þetta svæði við Kolaportið og í raun alla leið inní Hafnarhúsið gamla þar sem listasafnið er. Verður þá Kolaportið hluti af verslunarhverfinu og fólk geti flætt í gegnum það áfram inní listasafnið. Þetta gæti orðið mjög skemmtileg blanda,“ segir Helgi og nefnir að mögulegt verður jafnframt að ganga undir Geirsgötuna í gegnum samtengdan bílakjallara inní Hörpuna.

„Við höfum verið að benda á það að kolaportið er bara opið tvo daga í viku, en það væri upplagt að hafa þetta bara opið alla daga vikunnar sem öflugann markað. Það eru fullt af góðum hugmyndum í gangi og auðvitað mun Reykjavíkurborg, miðbærinn gerbreytast smám saman og við ætlum að vera öflugir þátttakendur í því.“

Í 3.200 fermetrum í Smáralindinni

„Þeir koma líka inn sem ankerisleigutaki í Smáralind til viðbótar við nokkra stóra aðila þar, eins og Hagkaup, Zöru, Lindex og fleiri. Nú bætist H&M við þann hóp,“ segir Helgi að lokum.

Vænta má að H&M muni opna í verslunarrými Debenhams í Smáralindinni, en verslun fyrirtækisins mun loka í síðasta lagi í maí á næsta ári. Er verslunin í 3.200 fermetra svæði nú, en fyrirtækið sem er í eigu Haga náði ekki samningum um áframhaldandi leigu við leigusala segir í frétt Vísis frá 30. júní síðastliðnum.