Viðskiptaráð hefur tekið saman yfirlit yfir stefnu stjórnmálaflokkanna í skattamálum og lagt mat á hversu skýrar áherslur flokkanna eru, sem og hvort þeir tali fyrir skattalækkunum eða skattahækkunum.

Var horft til fjögurra helstu tegunda skattheimtu í greiningunni, það er á vinnuframlag, sparnað, neyslu og rekstur, en einnig hvort flokkarnir hyggðust fjármagna kosningaloforðin með skattatillögum. Samkvæmt greiningunni sem lesa má á heimasíðu Viðskiptaráðsins eru skuggafjárlög Pírata annars vegar, og hins vegar skattastefna Sjálfstæðisflokksins skýrastar.

Þær eru þó jafnframt í gagnstæðar áttir, það er til lækkunar hjá Sjálfstæðisflokknum en til hækkunar hjá Pírötum. Eini annar flokkurinn sem er með tiltölulega skýra stefnu og þá til lækkunar er Framsóknarflokkurinn.

Hinir fjórir flokkarnir sem greining Viðskiptaráðs nær til teljast vera með óskýra stefnu, þar af Viðreisn og Vinstri grænir sýnu skýrari en Samfylkingin en Miðflokkurinn er sagður með áberandi óskýrustu stefnuna.

Viðreisn og Miðflokkurinn virðast þó báðir stefna að því að breyta hvorki til lækkunar né hækkunar, meðan Samfylkingin og Vinstri græn hyggjast bæði hækka skatta umtalsvert, Vinstri græn þó sínu meira.