Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, hefur ákveðið að stofna Frumbjörg, frumkvöðlamiðstöð Sjálfsbjargar. Til að hægt sé að koma miðstöðinni á fót hefur Brandur Karlsson, munnmálari og athafnamaður, hrundið af stað söfnun á vefsíðu Karolina Fund . Hægt er að styrkja söfnunina um hvaða fjárhæð sem er, en ákveðnar fjárhæðir fela í sér verðlaun fyrir styrktaraðilana.

Vettvangur nýsköpunar og velferðar

Frumbjörg verður vettvangur fyrir rannsóknir, nýsköpun og þróunarstarf á velferðar- og heilbrigðissviði. Einkum mun Frumbjörg koma til með að leggja áherslu á það sem tengist hreyfihömluðum og öðrum fötluðum.

Eitt meginmarkmið Frumbjargar verður að styðja fatlaða einstaklinga í því að skapa sín eigin atvinnutækifæri. Auk þess mun Frumbjörg byggja upp aðstöðu sem styður við nýsköpun og vísindastörf fyrir heilbrigðisstéttir og aðra sem vinna að velferðarmálum.

Aðstaða á fjórðu hæð Sjálfsbjargarhússins

Á söfnunarsíðu Frumbjargar segir að vantað hafi aðstöðu fyrir frumkvöðla- og nýsköpunarstarf á sviði velferðartækni og heilbrigðismála, þótt þörfin sé vissulega brýn. Fatlaðir hafi oft litla aðstöðu eða leiðsögn til að vinna að sínum hugðar- og hagsmunaefnum.

Markmið söfnunarinnar er 20.000 evrur eða rúmlega 2,8 milljónir íslenskra króna. Fyrir féð verður fjórða hæð Sjálfsbjargarhússins endurnýjuð og haldið verður opnunarteiti. Frumkvöðlamiðstöðin verður til að byrja með í 500 fermetra húsnæði á 4. hæð Sjálfsbjargarhússins. Þar mun hún njóta þjónustu og nálægðar við aðra starfsemi Sjálfsbjargar.