*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Innlent 27. ágúst 2018 16:32

Mikið framboð á rútuferðum frá flugstöðinni

Samkvæmt óformlegri könnun Túrista virðist ekki vera markaður fyrir allar þessar ferðir. Túristi taldi farþega í rútum við Keflavíkurflugvöll seinnipart dags í byrjun þessa mánaðar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Mikið framboð er af rútuferðum út á Keflavíkurflugvöll en samtals bjóða rútufyrirtækin þrjú Kynnisferðir, Hópbílar og Gray Line, upp á um það bil 120 ferðir á hverjum degi. Þetta kemur fram á vef Túrista

Túristi greinir frá því að ástæða aukins framboðs er útboð Isavia á rútustæðum sem staðsett eru beint fyrir framan komusal flugstöðvarinnar en útboðið fór fram síðasta sumar. Fór það útboð svo að Hópbílar og Kynnisferðir buðu hæstu þóknunina fyrir þessa aðstöðu á meðan Gray Line bauð lægra. Hafist var handa við að keyra samkvæmt þessu nýja fyrirkomulagi 1. mars síðastliðinn. Gray Line fékk ekki aðgengi að svæðunum beint við flugstöðina en félagið hélt þó áfram að veita þjónustu sína frá svokölluðum fjarstæðum. Isavia ákvað þá að hefja gjaldtöku á því bílastæði en Samkeppniseftirlitið stöðvaði þá gjaldtöku eftir kvörtun Gray Line.

Samkvæmt óformlegri könnun Túrista virðist ekki vera markaður fyrir allar þessar ferðir. Túristi taldi farþega í rútum við Keflavíkurflugvöll seinnipart dags í byrjun þessa mánaðar. Samkvæmt könnun Túrista var áberandi hversu fáir fóru upp í rútur Hópbíla/Airport Direct. Farþegar í hverri ferð voru aðeins 4-15 í hverri ferð, en sæti voru fyrir 53 farþega í rútunum í hverri ferð. 

Hjörvar Sæberg Högnason, framkvæmdastjóri Airport Direct, segir í samtali við Túrista að fyrirtækið sé nýr aðili á þessum markaði og að það taki tíma að byggja upp viðskiptasambönd. Heilt yfir hafi þó gengið ágætlega hjá þeim frá því að þeir byrjuðu í mars, en minnkun hafi orðið í kjölfar meiri samkeppni og lækkandi verðs frá samkeppnisaðilum.

Greiða um 350.000 krónur á dag til Isavia

Miðaverð í ferðir út á Keflavíkurflugvöll hefur almennt hækkað eftir útboð Isavia. Aukin kostnaður fyrirtækjanna skýrir þá hækkun meðal annars. Samkvæmt heimildum Túrista greiða Kynnisferðir til dæmis 41,2% af andvirði hvers miða til Isavia og Isavia fær þriðjung af af tekjum Hópbíla/Airport Direct. Endurgreiðslan til Isavia er reiknuð út frá 500 milljón króna lágmarki sem að frádregnum virðisaukaskatti nemur 127 milljónum króna á ári hjá Hópbílum/Airport Direct en 175 milljónum hjá Kynnisferðum.

Hópbílar greiðir því að jafnaði 350 þúsund krónur á dag fyrir aðstöðuna. Fyrirtækið þarf því að selja daglega um það bil 120 farmiða til að ná upp í þóknunina til Isavia.

Aðstaðan dýr

Samkvæmt könnun Túrista þá keyrðu rútur Kynnisferða (Flugrútan) fyrirtækisins nær alltaf fullfermdar frá flugstöðinni. Hjá Gray Line hafi farþegarnir hins vegar verið færri. Í samtali við túrista segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, að að það sé reynsla fyrirtækisins að það taki mjög langan tíma að byggja upp vörumerki og þar með fá góða nýtingu í sætaferðirnar til og frá Keflavíkurflugvelli. „Það er líka staðreynd að flestir þeir erlendu ferðamenn sem nýta sér ferðirnar til Reykjavíkur eru búnir að kaupa á ferðina fyrir komuna til landsins. Sölubás inn í Leifsstöð gerir þvi ekki gæfumuninn og sú aðstaða er því dýru verði keypt í dag,” hefur Túristi eftir Þóri.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim