Fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið 365 miðlar hf. tapaði rúmum 1,6 milljarði fyrir skatta á síðasta ári. Mikill viðsnúningur er á rekstri fyrirtækisins en félagið hagnaðist um 915 milljónir árið 2013. Helsta skýringin er að 1.071 milljóna króna endurskipulagningarkostnaður er færður til gjalda árið 2014. Verulegt tap hefði verið að rekstri félagsins þótt ekki hefði komið til þessa einskiptisliðar.

Tap fyrir tekjuskatt án gjaldfærslunnar er 568 milljónir króna. Tekju- og eignfærður tekjuskattur vegna taprekstursins nemur 279 milljónum. Þrátt fyrir verulegan neikvæðan viðsnúning í rekstrinum hækkar viðskiptavild, stærsta eign félagins, úr 5.642 milljónum í 5.995 milljónir.

Rekstrarafkoman milljarði verri

Tekjur drógust saman um 393 milljónir milli ára. Skýrist tekjulækkunin af sölu Póstmiðstöðvarinnar út úr rekstri 365 miðla, að sögn forsvarmanna 365. Kostnaðarverð seldra þjónustu hækkaði þrátt fyrir það, og var 485 milljónum hærri. Að auki hækkaði rekstrarkostnaður um 211 milljónir milli ára. Rekstrarafkoman er því 1.089 milljónum verri en árið áður, ef endurskipulagningunni er sleppt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .