Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í gær í Bretlandi gæti þýtt upplausn sambandsins og fer það allt eftir viðbrögðum ráðamanna sambandsins og aðildarlandanna og kjósenda þar, sem og hve vel Bretlandi gengur utan sambandins.

Hafa tvö ár til samninga eftir virkjun úrsagnarákvæðis

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi í gær þýðir að grein 50 í Lisbon sáttmálanum verður virkjuð en samkvæmt henni mun Bretlandi og sambandið fá tvö ár til að semja um hvað taki við eftir úrgönguna, en sérhvert land sambandsins mun hafa neitunarvald yfir niðurstöðum samninganna. Þó hafa formlegir talsmenn úrsagnar sagt að ekki þurfi að virkja greinina strax heldur geti samningaferlið hafist áður.

Viðskiptaleiðtogar í sambandinu vilja að Bretland fái hagkvæman samning til að viðhalda viðskiptatengslum meðan stjórnmálamenn í sambandinu eru taldir líklegir til að vilja refsa Bretum með hörðum skilyrðum til að draga úr líkum á frekari úrsögnum.

Kröfur um sams konar atkvæðagreiðslur í öðrum löndum

Nú þegar eru komnar fram kröfur um sams konar kosningar í öðrum löndum sambandsins, kallaði til dæmis Danski þjóðarflokkurinn á að ef úrslitin færu svona ætti að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild í Danmörku. Einnig hafa Geert Wilders formaður frelsisflokksins í Hollandi sem og Marine Le Pen, formaður frönsku þjóðfylkingarinnar kallað eftir sams konar kosningum í sínum heimalöndum.

Jafnframt er líklegt að þetta muni hafa mikil áhrif á komandi þingkosningar í álfunni, en Hollendingar ganga að kjörborðinu í mars á næsta ári, Frakkar í apríl og maí og Þýskaland um haustið. Ef Bretlandi gengur vel utan sambandsins gæti sambandið jafnvel leysts upp.

Utanríkisráðherra Þýskalands, Fran Walter Seinmeier lýsti úrslitunum sem „sorglegum degi fyrir Evrópu og Stóra Bretland“, meðan stuðningsmaður úrgöngu, Liam Fox, þingmaður Íhaldsflokksins sagði að kjósendur hefðu sýnt hugrekki með því að ákveða að „breyta sögunni“ fyrir Bretland og vonaði hann, restina af Evrópu. Hann kallaði jafnframt á að nú tæki við tími yfirvegunar þar sem unnið yrði úr tæknilegum hliðum málsins.