Alls seldust tæp 33 tonn af neftóbaki á árinu 2014 og er það 19% aukning milli ára. Þá varð lítilsháttar aukning í sölu á sígarettum, en samdráttur varð í sölu á vindlingum um 4,5%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÁTVR.

Áfengissala jókst jafnframt á árinu um 3% frá fyrra ári, en alls voru seldir 19.216 þúsund lítrar af áfengi. Lítilsháttar aukning var í sölu á rauðvíni og ókrydduðu brennivíni og vodka, en 0,5% samdráttur varð í sölu á hvítvíni á árinu. Sala ávaxtavína jókst hins vegar um 12,2% milli ára og sala á blönduðum drykkjum um 16,2%.

Alls komu 4.383.097 viðskiptavinir í Vínbúðina á árinu 2014 í samanburði við 4.285.091 viðskiptavin ári fyrr. Flestir viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar föstudaginn 1. ágúst eða rúmlega 42 þúsund, en á hefðbundnum föstudegi koma um 28 þúsund viðskiptavinir.