Aðgerðaáætlun um losun fjármagnshafta var kynnt 8. júní á síðasta ári. Í kjölfarið varð vart við mikið innflæði erlends fjármagns á íslenskum eignamarkaði. Einkum hefur verið rætt um skuldabréfamarkaðinn í því samhengi, þó einnig hafi verið fjárfest í skráðum og óskráðum fyrirtækjum. Þær áhyggjur hafa vaknað að í mörgum tilfellum sé um að ræða vaxtamunarviðskipti. Ekki eru öll kurl komin til grafar hvað það varðar en ljóst er að þeir erlendu fjárfestar sem áttu íslensk ríkisskuldabréf áður en áætlun um afnám hafta var kynnt fyrir um ári síðan hafa hagnast vel á þeirri fjárfestingu sinni. Fjárfestir sem kom til landsins með evrur og keypti fyrir þær óverðtryggð ríkisskuldabréf fyrir einu ári síðan hefur hagnast um allt að 33% á þeirri fjárfestingu í evrum talið, samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins. Þeir fjárfestar sem komu seinna hafa hagnast talsvert minna

Gengisþróun vegur þungt

Stærsti toppurinn í nýfjárfestingu í skuldabréfum var í ágúst, þegar erlendir aðilar fjárfestu í ríkisskuldabréfum um 25 milljarða króna. Fjárfestir sem kom til landsins með evrur þann 31. júlí í fyrra og fjárfesti fyrir þær í löngum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum hefur nú ávaxtað fé sitt um 15-20 prósent, þegar tekið er tillit til styrkingar krónunnar á sama tíma. Ávöxtunin á ársgrundvelli nemur allt að 24 prósentum í tilfelli lengsta skuldabréfaflokksins, RIKB 31.

Gengismunur og annar við­ skiptakostnaður er ekki inni í þessum tölum. Eins og sést á meðfylgjandi myndriti orsakast þessi góða ávöxtun af nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi hefur hreint verð langra ríkisskuldabréfa hækkað á undanförnu ári, sérstaklega undanfarið sumar, en verðþróunin hefur verið sveiflukenndari síðan í september. Í öðru lagi styrktist krónan mjög síðasta sumar og hefur styrkingin haldið áfram undanfarna mánuði. Í þriðja lagi nema nafnvextir langra ríkisskuldabréfa 6,5-8 prósentum. Erlendir fjárfestar hafa getað gert ýmislegt verra við fjármuni sína en að festa þá í íslenskum ríkisskuldabréfum sé litið á ávöxtunina undanfarna tíu mánuði. Þýsk ríkisskuldabréf hafa að­ eins hækkað um 3,7% miðað við BGER-vísitöluna og þýska DAX-hlutabréfavísitalan hefur lækkað um 11% á tímabilinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak í pdf-formi undir T ölublöð.