Óhætt er að segja að umskipti séu nú að verða í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Samkvæmt tölum sem Þjóðskrá tók saman fyrir Viðskiptablaðið voru íbúðir á höfuðborgarsvæðinu aðeins um 4% fleiri í maí síðastliðnum en í lok árs 2011. Skortur á húsnæði hefur aukist undanfarin ár, en nú virðist sem algjör sprengja sé í uppsiglingu miðað við ofangreindar áætlanir sveitarfélaga.

Þegar litið er á skipulagsáform sveitarfélaganna allt til ársins 2025, eins og þau birtast í aðalskipulögum, fást enn sterkari vísbendingar um að uppbygging húsnæðis verði umfram þörf. Þegar áætlanir sveitarfélaganna eru lagðar saman kemur í ljós að sem heild gera sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ráð fyrir umtalsvert meiri mannfjölgun en gert er ráð fyrir í mannfjöldaspá.

Mjög mikil bjartsýni

Í aðalskipulögum sínum spáir hvert sveitarfélag fyrir sig hver íbúaþróunin verður næstu áratugina. Ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu, utan Seltjarnarness, býst við því að íbúafjölgun í sveitarfélaginu verði hægari heldur en á höfuðborgarsvæðinu í heild. Reykjavíkurborg spáir því að árleg íbúafjölgun verði að jafnaði 0,9% til ársins 2030, og að það sé sama fjölgun og verði á höfuðborgarsvæðinu í heild.

Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður eru öllu bjartsýnni, en þessi sveitarfélög gera ráð fyrir 2-3% íbúafjöldun næsta áratuginn. Af aðalskipulagi Mosfellsbæjar má síðan ráða að íbúum bæjarins muni fjölga um helming til ársins 2024.

Hrafnkell Á Proppé, skipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins, tekur undir það mat að sveitarfélögin geri ráð fyrir meiri mannfjölgun en sem samræmist mannfjöldaspá. „Það er svolítið mikil bjartsýni. Það eru allir bjartsýnir fyrir hlut síns sveitarfélags, og þegar þú leggur alla þessa bjartsýni saman þá verður mjög mikil bjartsýni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .