Hlutabréfamarkaðurinn í Katar hefur lækkað mikið það sem af er degi og hafa gengi bréfanna ekki verið lægri í ár. Ástæðuna má rekja til frétta sem bárust í morgun þess efnis að Sádí-­Ar­ab­ía, Egypta­land, Barein og Sam­ein­uðu arab­ísku fursta­dæmin hafi slitið stjórnmálasambandi sínu við Katar.

Úrvalsvísitala Katar lækkaði um allt að 8% en fréttirnar komu auk þessa sérstaklega illa við orkufyrirtæki landsins. Hlutabréf félaga á borð við Qatar Gas Transport Company og Qatar Fuel Company lækkuðu þannig um meira en 10%.

Mikil efnahagsleg áhrif

Katar er stærsti framleiðandi fljótandi jarðgass í heiminum og hefur hingað til m.a. selt afurðir sínar til fjölmargra landa á svæðinu í gegnum leiðslur sem liggja frá Katar til Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Landið er auk þess aðili að OPEC, samtökum olíuframleiðsluríkja, sem leitt hefur verið af Sádí-Arabíu.

Aðgerðir landanna gegn Katar höfðu strax mikil áhrif á efnahagslíf landsins og hafa ýmis stærstu flugfélög miðausturlanda til að mynda sent frá sér tilkynningar þar sem þau lýsa því yfir að öllum flugum til Katar hafi verið frestað um óákveðinn tíma. Þá hefa erlendir miðlar einnig rifjað upp að Katar hefur verið umfangsmikið í erlendum fjárfestingum en stjórnvöld hafa til að mynda fjárfest umtalsverðum fjármunum í fasteignum erlendis sem og í hlutabréfum fyrirtækja á borð við Volkswagen, Barclays og Credit Suisse.