„Við byrjuðum á því að kaupa litla súkkulaðigerðarvél, bara til að prófa okkur áfram. Þá byrjuðum við á því að gera súkkulaði frá grunni. Núna gerum við súkkulaði beint úr kakóbaunum sem við flytjum inn frá fjórum mismunandi löndum,“ segir Kjartan Gíslason, einn stofnenda íslensku súkkulaðigerðarinnar Omnom.

Omnom hefur verið starfrækt í gamalli bensínstöð á Seltjarnarnesi síðan í nóvember. Þótt súkkulaðigerðin hafi ekki verið starfrækt lengi segir Kjartan að eftirspurnin hafi vaxið fljótt. „Hingað til höfum við aldrei náð að anna eftirspurninni almennilega, segir Kjartan. „Við höfum stækkað við okkur smám saman til að mæta henni. Við byrjuðum að selja í nóvember til að vera búnir undir jólasöluna, en hún dreif þetta vel áfram í byrjun. Það sem við erum að gera núna er að einbeita okk­ ur að ferðamannabúðunum í bænum og ná einhverri fót­ festu á þessum íslenska markaði. Við erum nú þegar búnir að selja svolítið erlendis, til New York, Parísar, Amsterdam og til Danmerkur. Við vorum alltaf með þá hugmynd bak við eyrað að reyna að flytja þetta út ef þetta gengi vel.“

„Súkkulaði er náttúrulega vara sem allir frá þriggja ára til 103 ára geta borðað. Þetta er ekkert fyrirbæri sem þarf að kynna eitthvað fyrir þér, þú ert ekkert að taka neina sérstaka áhættu þegar þú færð þér súkkulaði. Þú getur alveg sest niður og slakað á og borðað þetta eins og þú drekkur gott rauðvín en á sama tíma áttu að geta borð­að þetta með fjölskyldunni og vinum og haft gaman af því,“ segir Kjartan.

Nánar er fjallað um málið í Eftir Vinnu blaði Viðskiptablaðsins sem kom út 12. júní 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.