Farþegum Iceland Express fjölgaði umtalsvert í sumar og hafa farþegar með félaginu yfir sumartímann aldrei verið jafn margir og nú að því er kemur fram í frétt frá félaginu. Félagið flutti um það bil 15.000 fleiri farþega í júlí í ár heldur en í sama mánuði í fyrra og aukningin í ágúst var um það bil 12.000 farþegar milli ára.

Í fréttinni kemur fram að beinu flugi Iceland Express frá Akureyri til Kaupmannahafnar hefur jafnframt verið mjög vel tekið en þetta er annað sumarið sem félagið flýgur á þessari áætlunarleið. Farþegum á þessari leið fjölgaði um 32% milli ára þannig að Akureyringar og nærsveitungar taka beinu millilandaflugi því greinilega fagnandi. Það eru þó reyndar ekki bara heimamenn sem nýta sér beint áætlunarflug til Akureyrar því erlendum ferðamönnum fjölgaði mikið á flugleiðinni í sumar. Hlutfall erlendra flugfarþega jókst úr tæplega 30% farþega til og frá Akureyri sumarið 2006 í u.þ.b. 40% nú í sumar.

Iceland Express hóf í fyrsta sinn beint flug milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar í sumar og tóku Austfirðingar þessari nýjung í ferðaþjónustu í fjórðungnum vel. Áframhald verður á flugi á þessari leið næsta sumar.

?Við erum afar ánægð með hversu vel gekk í sumar. Við efldum þjónustuna verulega, því auk þess að bæta Egilsstöðum við hérna heima fjölguðum við áfangastöðum erlendis um fimm í vor. Viðtökurnar sýna að það var rétt ákvörðun og að markaðurinn hafi viljað fleiri áfangastaði og lægra verð. Sérstaklega er gaman að sjá hve mikil vítamínsprauta beint millilandaflug okkar til Akureyrar er fyrir ferðamannaiðnaðinn á Norðurlandi og ljóst að einokun suðvesturhornsins í millilandaflugi er úr sögunni,? segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express í fréttatilkynningu.