Á höfuðborgarsvæðinu er ódýrast að kaupa sérbýli í Hafnarfirði en dýrast á Seltjarnarnesi.  Á landsbyggðinni er sérbýli dýrast á Akureyri en ódýrast á Ísafirði. Þetta kemur fram í upplýsingum úr nýrri verðsjá Þjóðskrár Íslands en þær upplýsingar byggja á þinglýstum kaupsamningum fasteigna.

Viðskiptablaðið skoðaði meðalverð á 100 til 400 fermetra sérbýli í nokkrum sveitarfélögum á fyrstu þremur mánuðum ársins. Einnig var skoðað hvert meðalverðið var á sama tímabili fyrir tveimur árum. Til þessa að sjá fá meðalverð í Vestmannaeyjum, á Ísafirði og Egilsstöðum þurfti reyndar að skoða sex mánaða tímabil. Það er vegna þess að verðsjáin birtir einungis upplýsingar um verð ef þremur eða fleiri samningum hefur verið þinglýst á því tímabili sem skoðað er.

Á höfuðborgarsvæðinu er meðalfermetraverð 336 þúsund krónur. Verðið er langhæst á Seltjarnarnesi eða 390 þúsund en lægsta fermetraverðið er í Hafnarfirði, þar sem það er 305 þúsund krónur. Miðað við þetta kostar 200 fermetra sérbýli 78 milljónir króna á Seltjarnarnesi en 61 milljón í Hafnarfirði.

Á síðustu tveimur árum hefur verð á sérbýli hækkað um 24% á höfuðborgarsvæðinu. Mest hefur verðið hækkað í Mosfellsbæ eða um 36%, næst mesta hækkunin er í Hafnarfirði eða 33%. Í Kópavogi hefur fermetraverð á sérbýli aðeins hækkað um 15% á tveimur árum.

Dýrast á Akureyri

Viðskiptablaðið skoðaði verð á sérbýli í tíu sveitarfélögum á landsbyggðinni. Verðið er hæst á Akureyri, þar sem fermetrinn kostar tæplega 257 þúsund krónur. Næst hæsta verðið er í Keflavík, þar sem fermetrinn er á 228 þúsund. Lægsta fermetraverðið er á Ísafirði eða 116 þúsund krónur.  Miðað við þetta kostar 200 fermetra sérbýli um 51 milljón króna á Akureyri, í Keflavík kostar það tæplega 46 milljónir en á Ísafirði 23 milljónir.

Á síðustu tveimur árum hefur verð á sérbýli á landsbyggðinni hækkað mest í Hveragerði. Þar hefur fermetraverðið hækkað úr 154 þúsund krónum í 220 eða um 42%. Næst mesta hækkunin er í Keflavík þar sem fermetrinn kostar nú 228 þúsund en kostaði 175 fyrir tveimur árum. Hækkunin nemur 39%.

Í einu sveitarfélagi hefur fermetraverð nánast staðið í stað á síðustu tveimur árum en það er á Sauðárkróki. Þar kostar fermetrinn 182 þúsund núna en kostaði tæplega 183 þúsund fyrir tveimur árum.

Sérbýli kort
Sérbýli kort

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .