Hlutabréf á Asíumörkuðum lækkuðu almennt séð í nótt vegna þess að markaðurinn metur svo að líkur séu að aukast á að seðlabanki Bandaríkjanna muni hækka stýrivexti í desember. Það muni þýða að fé muni flæða frá Asíu til Bandaríkjanna að margra mati.

Framvirkir samningar sýna að líkurnar sem markaðurinn metur á vaxtahækkun hafi farið upp í 74,5% frá því að vera 69,5% degi fyrr.

Fundargerðir Seðlabankans birtar í dag

„Þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem framvirku samningarnir hafa farið upp fyrir 70% líkur á stýrivaxtahækkun. Markaðurinn er farinn að taka möguleikann alvarlega núna,“ sagði Heng Koon How, hjá Credit Suisse.

Markaðsaðilar munu líklega horfa grannt til fundargerðar frá fundi nefndar Seðlabankans um opna markaði sem verða birtir seinna í dag.

Lítill hagnaður hjá Alcoa

Í japan lækkuðu hlutabréf vegna taps meðal stál og fjármálafyrirtækja, lítill hagnaður frá álframleiðandanum Alcoa hafði áhrif á japanska stálframleiðendur. Einnig voru lækkanir á mörkuðum í Kína eftir hækkun síðustu tveggja daga, þar lækkuðu hlutabréf í fyrirtækjum tengt skipaframleiðslu, sementsframleiðslu og stáliðnaði mest.

Gengi hlutabréfa í Tælandi náði sínu lægsta gildi í heilan mánuð í kjölfar þess að áhyggjur hafa vaknað yfir heilsu konungsins í landinu en margir líta til hans sem táknmynd stöðugleika í landinu.

Helstu vísitölur á svæðinu:

  • Nikkei 225 vísitalan í Japan lækkaði um 1,09%
  • Kospi vísitalan í Suður Kóreu hækkaði um 0,09%
  • Taiwan Weighted vísitalan hækkaði um 0,36%
  • Hang Seng vísitalan í Hong Kong lækkaði um 0,70%
  • Dow Jones Shanghai vísitalan lækkaði um 0,23%
  • FTSE China A50 vísitalan lækkaði um 0,28%
  • SET vísitalan í Tælandi hefur lækkað um 4,46%  það sem af er viðskiptadegi.
  • S&P/ASX 200 vísitalan í Ástralíu lækkaði um 0,09%
  • Dow Jones New Zealand vísitalan lækkaði um 0,23%